Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kjörin ungmennafulltrúi og situr allsherjarþing S.þj.

28.02.2021 - 21:02
Mynd með færslu
 Mynd: Ari Páll Karlsson - aðsend mynd
Jóna Þórey Pétursdóttir var í gær kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda. Kjörið fór fram á sambandsþingi Landsambands ungmennafélaga. Jóna Þórey situr allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í september fyrir hönd ungs fólks á Íslandi.

Jóna Þórey er forseti Rannveigar, Ungra Jafnaðarmanna í Kópavogi og var forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 2019 til 2020. Í tilkynningu um kjörið, frá Ungum Jafnaðarmönnum, segir að sem forseti Stúdentaráðs hafi hún, í samstarfi við samtökin No Borders Iceland, meðal annars barist gegn tanngreiningum á fylgdarlausum börnum og ungmennum á flótta.  

Þá kom Jóna Þórey að skipulagningu jafnréttisþings forsætisráðuneytisins í fyrra og tók þátt í pallborði á Women Political Leaders Forum og sótti loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 2019, COP25, og tók þar þátt í pallborðsumræðum til að krefjast aðgerða í þágu kynslóða framtíðarinnar.

Í haust byrjar Jóna Þórey í meistaranámi í mannréttindalögum við Edinborgarháskóla. Áður lauk hún námi frá lagadeild Háskóla Íslands. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir