Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Engin lognmolla framundan hjá Joe Biden

Mynd: EPA-EFE / The New York Times POOL
Á fyrsta degi í embætti undirritaði Joe Biden fjölda tilskipana til að afnema ákvarðanir fyrirrennara síns, Donalds Trumps. Biden hyggst gerbreyta stefnu Bandaríkjastjórnar bæði í innanríkis- og utanríkismálum. Demókratar ráða báðum deildum þingsins, en það getur samt reynst þrautin þyngri að hrinda stefnumálum í framkvæmd og uppfylla loforð úr kosningabaráttunni.

Breyta ákvörðunum fyrirrennara

Að sumu leyti má segja að þeir eigi það sameiginlegt Donald Trump og Joe Biden að áhersluatriði þeirra í upphafi forsetatíðar eru að breyta gjörðum fyrirrennara sinna. Þannig virtist Trump hafa nánast ímugust á öllu sem Barack Obama hafði gert og reyndi sitt ítrasta til að breyta ákvörðunum og lögum sem sett voru í tíð Obama. 

Afnam strax fjölda tilskipana Trumps

Strax á fyrsta degi eftir að hafa tekið við embætti undirritaði Biden fjölda tilskipana til að afnema ákvarðanir Trumps, þar á meðal um að taka aftur þátt í Parísarsamkomulaginu um aðgerðir í loftslagsmálum, afnema bann á að trans fólk þjónaði í herafla Bandaríkjanna og Biden stöðvaði byggingu múrsins alræmda á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Einangrunarstefna Trumps

Trump hafði sagt skilið við alþjóðastofnanir, -sáttmála og samninga, hann sagði upp samningnum um kjarnorkumál við Íran, sem gerður var 2015 og tilkynnti um brotthvarf og hætti þátttöku í Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Hann lýsti samningum fyrirrennara síns sem verstu samningum sem gerðir hefðu verið.

Hafði ofurtrú á eigin hæfileikum til samningagerðar 

Trump sinnti lítt hefðbundnum bandamönnum Bandaríkjanna, skammaðist út í NATO, niðurlægði oft leiðtoga bandalagsríkja og sinnti ekki stofnunum eins og G7, Sameinuðu þjóðunum og öðrum alþjóðasamtökum en vildi frekar eiga tvíhliða samskipti. 

Trump virtist hafa óbilandi trú á eigin hæfileikum til ná „díl“ og ræddi til dæmis við Pútín á einum fundi þeirra án aðstoðarmanna. 

Biden er alþjóðasinni af gamla skólanum

Joe Biden er allt öðru vísi, hann er alþjóðasinni af gamla skólanum og sver sig þannig í ætt við alla Bandaríkjaforseta frá tímum Franklins Roosevelts. Hann hefur þegar tekið þátt í fjarfundi með leiðtogum G7-ríkjanna og fyrir rúmri viku ávarpaði hann öryggisráðstefnuna í München, sem hefur verið árlega frá 1963 og er einn mikilvægasti vettvangur heimsins til skoðanaskipta um utanríkis- og öryggismál. Þar lagði hann áherslu á mikilvægi NATO, Atlantshafssamstarfið væri jafn mikilvægt á 21. öldinni og það hefði verið á þeirri 20.

Erfið verkefni bíða

En Bidens bíða mjög erfið verkefni í utanríkismálum og það er áherslumunur á milli stefnu stjórnar hans og sumra bandamanna og það gildir ekki síst um afstöðuna til Kína. Það verður nefnilega ekki litið fram hjá því að þungamiðja heimsmála er færast frá Atlantshafi og Evrópu yfir til Asíu og Kyrrahafsins. Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra bæði í Washington og Moskvu, sagði í Heimskviðum í fyrra að Asíu-Kyrrahafssvæðið sé drifkraftur alþjóðakerfisins og samkeppni milli Bandaríkjanna, mesta stórveldis heims, og Kína sem sé rísandi stórveldi verði ráðandi þáttur í alþjóðamálum. 

Viðskiptastríð við Kína

Það verður erfitt verkefni fyrir Biden að ná lendingu í viðskiptadeilunum og spurning hversu mikla áherslu hann leggur á að ná samningum. Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, hefur mælst til þess við Biden Bandaríkjaforseta að hverfa aftur til fyrri siða í samskiptum eftir stormasöm ár í valdatíð Donalds Trumps. Biden virðist óska eftir betri samskiptum, hann ræddi í síma við Xi Jinping í síðustu viku.

Biden horfir líklega meira til Evrópu en Obama

Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði, telur að Biden hafi aðrar áherslur í utanríkismálum en Barack Obama, sem horfði mest til Asíu. Hann verði jafnframt herskárri en Donald Trump. Raunar hefur Biden þegar beitt herafla Bandaríkjanna, hann fyrirskipaði loftárás á vígamenn í Sýrlandi í hefndarskyni við flugskeytaárásir á bandarísk skotmörk í Írak undanfarið. Á þriðja tug féll í loftárás Bandaríkjamanna.

Deilur og klofningur heima fyrir

Ef við lítum á sviðið heima fyrir þá virðist sem deilur og klofningur meðal þjóðarinnar séu meira áberandi nú en að minnsta kosti frá tímum Vietnamstríðsins. Það er erfitt að meta hvort klofningurinn er meiri eða minni en þá var en það er alla vega ljóst að það er langur vegur frá því að einhver eining ríki meðal bandarísku þjóðarinnar.

Trump nýtur mikils stuðnings

Trump nýtur enn mikils stuðnings, 74 milljónir greiddu honum atkvæði, margt þessa fólks trúir því að brögð hafi verið í tafli, sigrinum hafi verið stolið af Trump. Þetta stuðningsfólk sýndi með árásinni á þinghúsið 6. janúar, sem er atburður sem á sér ekki líka í nútímasögu Bandaríkjanna, að það er tilbúið að ganga mjög langt.

McConnell segir Trump ábyrgan fyrir árásinni á þinghúsið

Repúblikanar í öldungadeild Bandaríkjaþings heyktust á að sakfella Trump fyrir að bera ábyrgð á árásinni á þingið en jafnvel menn sem voru eiturharðir stuðningsmenn hans eins og Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, hafa kveðið upp úr með óyggjandi hætti að þeir telji hann ábyrgan fyrir árásinni á þingið.

Erfitt að ná samkomulagi á þingi

Þessi klofningur meðal þjóðarinnar eða skautun eins og Silja Bára hefur nefnt það gerir erfitt að ná samkomulagi á þingi. Demókratar eru núna í þeirri stöðu að ráða bæði í fulltrúadeild og öldungadeild þingsins en sá meirihluti gefur Joe Biden ekki óskorið vald til lagabreytinga, langt í frá. Forsetinn hefur lofað meðal annars að bæta aðgengi að opinberri heilbrigðisþjónstu, bæta innviði eins og vegakerfið og brýr, og það er ljóst hvað margt þarfnast endurnýjunar þegar illviðri valda umfangsmiklu rafmagnsleysi og kuldakast í Texas olli neyðarástandi. Þá bíður nýrrar stjórnar að endurskoða löggjöf í innflytjendamálum og setja strangari lög í umhverfismálum.

Segist vilja vinna með Repúblikönum

Biden hefur lýst vilja til að vinna með Repúblikönum og hefur þegar átt fundi með leiðtogum þeirra á þingi, en það er alls ekki gefið að honum takist að skapa samstöðu á þingi.

Trump hefur í málflutningi sínum alla tíð stuðlað að misklíð, búið til óvini, hann er alltaf fórnarlambið, hann talar um ofsóknir gegn sér sem eigi sér engan líka og lýgur blákalt eins og rakalausar fullyrðingar um kosningasvindl bera vitni um. Joe Biden hefur talað um að sameina þjóðina en á meðan Trump er við sama heygarðshornið og hefur þau miklu ítök í Repúblikanaflokknum sem hann virðist hafa og þingmenn flokksins þori ekki að gera annað en það sem hann leggur blessun sína yfir virðist lítil von til þess að deilurnar hjaðni og illmögulegt verður að ná víðtækri pólitískri sátt um nokkur mál. 

Vaxandi óánægja með tveggja flokka kerfið

Það er því kannski ekki furða að þeirri skoðun vex nú fylgi að þörf sé á uppstokkun á því pólitíska kerfi tveggja flokka sem ríkir vestan hafs, það nálgast nú að tveir þriðju hlutar Bandaríkjamanna séu þessarar skoðunar ef marka má nýlega Gallup könnun. Hugsanlegt að afstaða stuðningsmanna Trumps breytist ef hann verður dæmdur.

Mikil að gera á þingi næstu vikur

Þó að öldungadeildin hafi sýknað Donald Trump af ákæru fulltrúadeildarinnar hafa öldungadeildarþingmenn nóg að gera á næstunni, núna standa yfir yfirheyrslur vegna rannsóknar á árásinni á þingið 6. janúar. Öldungadeildin er sömuleiðis byrjuð að ræða við ráðherraefni Bidens, Merrick B. Garland, sem er tilnefndur í embætti dómsmálaráðaherra, hefur verið að svara spurningum í dómsmálanefnd þingsins. Á næstu vikum þarf Biden að fá staðfestingu öldungadeildarinnar á tilnefningu í fjölda annarra embætta, allir ráðherrar og allir sendiherrar og margir aðrir embættismenn verða að fá staðfestingu deildarinnar. 

Gamalreyndur refur í stjórnmálum

Joe Biden er búinn að vera lengi í stjórnmálum, það er líklegt að hann þurfi að beita allri sinni löngu stjórnmálareynslu á næstu misserum. Þetta ár verður baráttan gegn COVID sennilega helsta viðfangsefni stjórnmála vestan hafs. Nú þegar hefur meira en hálf milljón manns látið lífið, þegar ástandið var hvað verst létust fleiri á hverjum degi en féllu í árásinni á Pearl Harbor eða 11. september 2001.