Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Á níu ára gamalt met sem verður seint slegið

Mynd: RÚV / RÚV

Á níu ára gamalt met sem verður seint slegið

28.02.2021 - 20:33
Jóhanna Júlía Júlíusdóttir sigraði í Crossfit-keppni Reykjavíkurleikanna fyrr í mánuðinum. Hún stefnir langt í greininni en á líka á baki nokkuð skemmtilegan feril í annarri keppni og á þar ótrúlegt Íslandsmet sem verður seint slegið.

Jóhanna Júlía er 24 ára gömul og sigraði með nokkrum yfirburðum á Reykjavíkurleikunum. Hún viðurkennir að það hafi aðeins komið á óvart enda var langt liðið frá síðustu keppni og æfingabann nýafstaðið.

„Ég myndi ekki segja að ég átti von á því, en það var alltaf markmiðið. Maður segist ekki ætla að setja neina pressu á sig en svo langar manni alltaf að vinna þetta," segir Jóhanna Júlía.

Hún hefur lítið getað æft síðustu mánuði útaf æfinga- og keppnisbanni vegna kórónuveirufaldursins en nýtti tímann í útihlaup og léttar æfingar. „Maður var voða mikið úti að hlaupa og taka léttar æfingar. Maður var ekki búin að vera 100% í crossfit æfingum. En ég var búin að vera dugleg að hlaupa, synda og svona. Það hjálpar til, segir Jóhanna Júlía. 

Jóhanna Júlía stundaði sund af kappi þegar hún var yngri. Hún keppti fyrir Íslands hönd á unglingamótum en svo dvínaði áhuginn. „Ég hætti í sundi og byrjaði í crossfit fljótlega eftir það. Maður var orðin pínu leiður á þessu og langað að gera eitthvað annað. Ég byrjaði aðeins í ræktinni en það var ekki alveg fyrir mig að slæpast ein í ræktinni. Ég var fljót að finna þjálfara hérna sem kom mér inn á grunnnámskeið og ég hef ekki snúið til baka síðan," segir Jóhanna Júlía.

Ísland á margar sterkar Crossfit-konur sem Jóhanna Júlía lítur til þegar hún horfir til framtíðarinnar í íþróttinni og sjálf setur hún stefnuna á heimsleikana. „Það er alltaf gaman að fara að keppa meira á stórum mótum erlendis. Svo er alltaf aðalmarkmiðið að komast á heimsleikana. Það verður alltaf erfiðara og erfiðara með hverju árinu, en það er alltaf markmiðið," segir Jóhanna Júlía.

Níu ára gamalt Íslandsmet stendur enn

Íslandsmet eru ekki skráð í greinum Crossfit en Jóhanna Júlía státar af einu af magnaðari Íslandsmetum sem enn eru gild. Hún keppti í Skólahreysti fyrir Myllubakkaskóla og árið 2012 setti hún Íslandsmet í armbeygjum þegar hún gerði 177 stykki. Hún háði á þessum árum mikið einvígi við Dóru Sóldísi Ásmundsdóttur og skiptust þær á að eiga Íslandsmetið.

„2011, þá sló ég metið held ég um tvær armbeygjur. Hún kom svo á eftir mér og sló það af mér þannig að ég átti það ekki í nema nokkrar mínútur. Svo ári seinna snérist þetta við. Þá var hún í riðlinum á undan og bætti það og svo kom ég á eftir henni og heldur betur ætlaði að láta það standa í þetta skipti," segir Jóhanna Júlía.

Met Jóhönnu Júlíu hefur staðið í níu ár en hún er þó ekki viss um að hún myndi slá metið ef hún myndi reyna í dag þó svo að hún taki reglulega armbeygjur. „Já, maður er alltaf að taka armbeygjur en ég ætla ekki að reyna að bæta þetta. Ég myndi örugglega ekki slefa yfir 100, ég held ekki. Það væri samt gaman að sjá það ef keppnisskapið kæmi," segir Jóhanna Júlía. 

Hún er ekki alveg viss um hvaða þessi mikli armbeygjustyrkur kemur. „Ég veit það ekki. Ég er ennþá jafn hissa á þessu og allir aðrir. Hvernig ég fór að þessu. Maður var í pínu þreki með sundinu en aldrei að gera armbeygjur á hverjum degi.

Samhliða stífum Crossfit-æfingum hugar Jóhanna Júlía líka að framtíðinni og menntar sig. „Ég stunda nám við Háskóla Íslands í íþróttafræði. Ég hef mikinn áhuga á þessu, að kenna og þjálfa, þannig að ég var ekkert að taka sénsinn að skrá mig í verkfræði eða eitthvað," segir Jóhanna Júlía sem vonast til þess að þjálfa og kenna í framtíðinni."