Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Yfirborðskenndur og örvæntingarfullur veiruhryllingur

Mynd: The Stand / CBS

Yfirborðskenndur og örvæntingarfullur veiruhryllingur

27.02.2021 - 10:00

Höfundar

Það er illa farið með The Stand, eina af fyrstu skáldsögum hrollvekjumeistarans Stephens Kings, í nýjum sjónvarpsþáttum segir Katrín Guðmundsdóttir. „Hér hefur eitthvað, nú eða bara allt saman, farið stórkoslega úrskeiðis.“

Katrín Guðmundsdóttir skrifar:

Hann hefur skrifað yfir 60 skáldsögur og 200 smásögur. Bækurnar hans hafa selst í meira en 350 milljónum eintaka. 49 kvikmyndir hafa verið gerðar eftir þeim og 30 sjónvarpsþáttaraðir. Þá er 21 verk í framleiðslu árið 2021. Liðin er sú tíð þegar rithöfundurinn Stephen King var afskiptur konungur hryllingsins, því eins og sjá má hefur hann fyrir löngu lagt undir sig bæði poppkúltúr og meginstraum fyrir tilstuðlan Hollywood.

Það eru eflaust margar ástæður fyrir því að kvikmyndagerðarmenn sækja efnivið sinn í skáldverk Kings í jafn miklum mæli og raun ber vitni. Ein þeirra gæti verið að helstu höfundareinkenni hans, framúrskarandi persónusköpun og vel ígrundaðir söguþræðir, eru hvort tveggja burðarstoðir frásagnarlegra kvikmynda og sjónvarpsþátta. Frjótt ímyndunarafl og myndræn framsetning eru einnig mjög líklegir áhrifaþættir, sem og stór aðdáendahópur höfundarins og vinsældir fyrri verka sem byggð hafa verið á bókum hans.

Þetta síðastnefnda hefur þó mögulega orðið áhrifameira í seinni tíð, nú þegar markaðsleg reynsla er komin á aðlaganir verka hans, sem falla jafnvel undir sérstaka kvikmyndagrein í dag. Allir vilja hoppa á Stephen King-vagninn enda er nokkuð öruggt að framleiðsla verkanna borgi sig fjárhagslega orðsporsins eins vegna. Þá er meira að segja farið að bera á endurgerðum vinsælla aðlagana, eins og til dæmis sjónvarpsþættirnir The Stand sem eru aðgengilegir í Sjónvarpi Símans um þessar mundir.

The Stand kom út  1978 og er ein af fystu skáldsögum Kings. Hún segir frá viðleitni fólks til að koma á nýju samfélagi eftir að banvæn veira þurrkar út nánast allt mannkynið. Ónæmir eftirlifendur hópast saman og mynda tvær fylkingar undir forystu leiðtoga sem standa fyrir annars vegar hið góða og hins vegar hið illa í heiminum. King segist sjálfur hafa verið undir áhrifum Hringadróttinssögu þegar hann skrifaði bókina, sem er jafnframt hans lengsta verk til þessa eða heilar 1.152 blaðsíður, takk fyrir.

Bókin er í uppáhaldi hjá mörgum af dyggustu aðdáendum Kings sem telja hana vera bæði trúverðuga og taka á málefnum sem fæstir láta sig varða þegar þeir huga að mögulegum heimsendi. Að hætti höfundarins eru persónurnar bæði margar og margvíðar og þróast þær auk þess markvisst gegnum söguna alla, sem er jafnframt svo löng að hún inniheldur í rauninni fjölmargar minni sögur. Þar af leiðandi er hægt að lesa bókina aftur og aftur og upplifa atburðarásina á nýjan hátt í hvert skipti. Svolítið eins og þegar maður les Hringadróttinssögu. Allir þessir kostir bókarinnar geta aftur á móti verið hættulegir kvikmyndamiðlinum, þar sem hann krefst mun skýrari fókuss á viðfangsefni sín en hefðbundnar skáldsögur.

Árið 1994 var gerð fjögurra hluta örþáttaröð eftir sögunni sem féll almennt í kramið hjá fólki, enda skrifaði King handritið sjálfur og gat því ekki aðeins stýrt áherslum á atburðarásinni heldur líka séð til þess að aðdáendur yrðu þokkalega sáttir með afurðina. Aðdáendurnir eru enda stór áhrifaþáttur í viðtökum markaðarins á aðlögunum bóka hans og eftir því sem samskiptatækni fleygir fram verða samfélög þeirra sýnilegri og raddirnar innan þeirra háværari. Það hringdu því strax viðvörunarbjöllur þegar margir aðdáendur hófu að hafna nýju þáttaröðinni löngu áður en hún var sett í sýningu.

Óánægjan virðist einna helst hafa stafað af forsvari CBS sem tryggði sér réttinn að aðlöguninni árið 2011. Eftir það flakkaði verkefnið á milli manna í Hollywood í mörg ár þar sem bæði handritshöfundar og leikstjórar gáfust upp á því hver á fætur öðrum, oftar en ekki vegna umfangs sögunnar. Lagt var upp með að gera kvikmynd sem síðar var fallist á að yrðu tvær, alveg þar til það varð ekki lengur horft fram hjá því að það yrði að gera sjónvarpsþáttaröð. Semsagt, stirðbusaleg byrjun á verkefni sem virðist síst af öllu hafa verið drifið áfram af ástríðu.

Þegar loks tókst að ráða teymi og hefja framleiðslu var eins og allar ákvarðanir sem teknar voru færu öfugt ofan í aðdáendur, jafnvel þótt King sjálfur og Owen sonur hans hafi setið við borðið. Leikaravalið var sérlega umdeilt en í stað þess að ráða faglega leikara með skynbragð á mannleg samskipti var leitað á náðir fólks sem er þekktara fyrir stormasamt einkalíf fremur en hæfileika, svo sem Amber Heard og Ezra Miller. Rokkarinn aflýsti, Marylin Manson, var meira að segja orðaður við hlutverk í þáttunum lengi vel.

Útkoman er bæði yfirborðskennd og örvæntingarfull og áhorfendur þurfa hvorki að hafa lesið sér til um framleiðslusöguna né vera aðdáendur Stephens Kings til að átta sig á því að hér hefur eitthvað, nú eða bara allt saman, farið stórkoslega úrskeiðis. Þættirnir eru nefnilega það sem maður myndi kalla kjarnalausir og enginn virðist raunverulega hafa tekið að sér að stýra verkefninu frásagnarlega eða myndrænt. Maður fær alla vega sterka tilfinningu fyrir því að það eina sem teymið hafi komið sér saman um hafi verið að klára þetta erfiða og langdregna verkefni í eitt skipti fyrir öll.

The Stand fellur djúpt ofan í þá gryfju sem verkefnið var frá upphafi byggt í kringum. Þættirnir reyna að segja allt of mikið sem verður til þess að þeir segja í rauninni ekki neitt. Söguþráðurinn er sundurlaus og kvikmyndamiðillinn, með alla sína myndrænu eiginleika, leggur honum ekkert til. Þess í stað eru langar og ítarlegar baksögur persóna fléttaðar inn í atburðarásina, þó án þess að þær afhjúpi gjörðir þeirra eða láti áhorfendum þykja vænt um þær.

Kórónuveiran hefði sannarlega getað komið sem himnasending fyrir markaðssetningu þáttanna en þvert á móti virðist faraldurinn hafa verið náðarhögg þeirra. Eðlilega hefur enginn gert ráð fyrir að ástand sambærilegt því sem er uppspretta atburðanna í þáttunum myndi breyta heiminum samhliða sýningu þeirra, enda er lítil sem engin áhersla á veiruna sjálfa í sögunni. Það er vissulega óheppilegt en í ljósi þess hversu dauf raunveruleg viðfangsefni þáttanna eru, eins og til dæmis kristin trúarbrögð, má ekki vorkenna aðstandendum of mikið.

Eflaust er snúið að aðlaga jafn langa og umfangsmikla skáldsögu og The Stand á kvikmyndaform. Það ætti þó ekki að vera ómögulegt, sérstaklega ef ástríðan er til staðar. Hringadróttinssaga er til marks um það. Mögulega er Stephen King-vagninn orðinn yfirfullur. Alla vega gefa sjónvarpsþættirnir til kynna að kvikmyndaverin í vestri séu aðeins farin að vatnsblanda mjólkina úr spenum höfundarins.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Næstbesta bíómyndin gerð eftir bók Stephens King

Bókmenntir

Skelkaður King kemur bókagagnrýni til bjargar

Kvikmyndir

Keyptu kvikmyndaréttinn af King á dollar

Sjónvarp

Ekki fyrir myrkfælna