Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tveir menn á áttræðisaldri drukknuðu í Svíþjóð

27.02.2021 - 06:33
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Tveir karlmenn á áttræðisaldri drukknuðu eftir að klaki brotnaði undan þeim á stöðuvatni í Suðurmannalandi í Svíþjóð í gær. Mennirnir ætluðu að veiða í gegnum vök í vatninu Yngaren, sem er á milli Katrineholm og Nyköping.

Kallað var eftir aðstoð björgunarsveitna síðdegis í gær eftir að ekkert hafði spurst til mannanna í talsverðan tíma. Leitin hófst klukkan fimm að staðartíma og um klukkutíma síðar fundust mennirnir ofan í vatninu.

Björgunarfólki tókst að draga mennina á land, en lífgunartilraunir báru engan árangur að sögn fréttastofu sænska ríkissjónvarpsins. Lögreglan segir ekkert benda til þess að andlát þeirra hafi borið að með saknæmum hætti.

Fjórir karlmenn á sjötugs- og áttræðisaldri drukknuðu eftir að þeir féllu ofan í vök í vatninu Vallsjön í sunnanverðri Svíþjóð á fimmtudag. Klaki á stöðuvötnum hefur þiðnað hratt í hlýindum síðustu daga, eftir hörku frost síðustu vikur.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV