Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Öll fórnarlömb mansals eiga rétt á aðstoð

Mynd með færslu
Vændiskaupandi í Reykjavík.  Mynd:
Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands og fulltrúi í framkvæmdateymi um mansal í Bjarkarhlíð fagnar breytingatillögu dómsmálaráðherra varðandi mansalsákvæði almennra hegningarlaga.

„Frumvarp til breytinga á þessu ákvæði er vel unnið og gott,“ sagði Margrét í morgun á síðasta hluta málþings Eflingar, SGS og ASÍ um stöðu erlends verkafólks á Íslandi.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að breytingar á ákvæðinu lúti að refsinæmi mansals, í þeim tilgangi að bæta enn frekar vernd þolenda brotanna og auðvelda málsókn á hendur þeim sem ábyrgir eru fyrir brotunum.

Núgildandi ákvæði ekki nógu ítarleg

Margrét segir núverandi ákvæði hegningarlaga ekki nógu ítarlegt og greinargerð með því ekki nógu skýr. Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri framkvæmdateymis um mansal í Bjarkarhlíð, segir góða vinnu hafa verið unna með fagfólki en vitundarvakningu skorti meðal almennings.

„Rikisstjórnin hefur gert samning við Rauða krossinn um hvernig bera skuli kennsl á mansal,“ segir Ragna Björg og að mikil eftirspurn sé eftir þeirri þekkingu.

Hún segir eitt af hlutverkum Bjarkarhlíðar hafa verið að kortleggja umfang mansals og koma á samstarfi milli þeirra stofnana sem bregðast þurfi við.  

Svokallaðri Palermó-bókun við samning Sameinuðu þjóðanna er beint gegn mansali að því er fram kom í máli Margrétar. Bókunin var staðfest af Íslands hálfu árið 2000, hefur verið fullgild og Evrópuráðssamningurinn um aðgerðir gegn mansali sömuleiðis.  

Margrét segir skilgreiningu mansals ná til þriggja meginþátta að útvega, hýsa og taka við einstaklingi. Nauðung, blekkingum og ofbeldi sé beitt og tilgangurinn sé misnotkun.

Það geti falist í vændi eða öðrum kynferðislegum tilgangi, nauðungarvinnu, þrældómi eða í mjög alvarlegum dæmum séu líffæri numin úr fólki.

Fórnarlambið þarf ekki að sanna mansal

Á vef Mannréttindaskrifstofu Íslands kemur fram að árlega eru þúsundir, aðallega ungar konur og börn, seld mansali og neydd út í kynlífsþrælkun og vændi eða aðra nauðungarvinnu. „Þessi þrælasala nútímans á sér stað jafnt milli landa sem innan þeirra og vex tala fórnarlamba frá ári til árs.“

„Mikilvægt er að hafa í huga að samkvæmt skilgreiningu eiga öll fórnarlömb mansals rétt á aðstoð. Samþykki einstaklings skiptir ekki máli, hafi aðferðum mansals verið beitt.“ segir Margrét og bætir við að þetta eigi til dæmis við varðandi umræðu um vændi. 

„Það skiptir ekki máli þótt viðkomandi segist stunda vændi af fúsum og frjálsum vilja,“ segir Margrét og fórnarlamb þarf ekki að færa sönnur á að það hafi verið beitt mansali, stóra spurningin sé hvort einhver hafi nýtt sér bágar aðstæður þess.

Hún segist hafa viljað sjá þetta áréttað í frumvarpi dómsmálaráðherra. Einnig sé hugarfarsbreytingar þörf. „Margir segja blákalt eðlilegt að útlendingar séu á lægri launum og skuli vinna þau störf sem Íslendingar vilja ekki.“ 

Í frumvarpinu komi fram að hagnýting þurfi ekki að vera í fjárhagslegum tilgangi, auk þess sem hnykkt er á skilgreiningu mansals, sem Margrét segir að ætti að auðvelda lögreglu rannsókn slíkra mála. 

Hún segir margt hafa verið vel gert á Íslandi undanfarin ár, stéttarfélögin hafi til að mynda staðið sig vel. Það sé hennar mat að mikilvægt sé að ná til þess fólks sem brotið sé gegn og kveðst innilega vona að frumvarpið komist í gegnum þingið. 

Algengt að bág staða fólks sé hagnýtt

Að sögn Margrétar er algengast hér á landi að verið sé að nýta bága stöðu fólks, sem jafnvel sé ekki alltaf sýnileg.

Til dæmis hafi þær stúlkur sem voru á nektarstöðum hér tilheyrt rússneska minnihlutanum í Eystrasaltslöndunum, sem átti undir högg að sækja eftir að þau ríki fengu sjálfstæði. 

Oft komi hingað fólk til starfa á au-pair samningum eða fjölskyldusameiningarleyfum og verður fyrir misnotkun. Það fólk fái ekki nema hluta þess sem því ber að fá greitt, nokkrir milliliðir taki lungann af peningum þess. 

„Eitt gróft dæmi hafi verið af strák sem hingað kom og var látinn vinna í byggingavinnu, bera út blöð en fékk enga vasapeninga.“ Einstaklingur þarf ekki að vera beittur ofbeldi til að teljast fórnarlamb mansals að sögn Margrétar. 

Koma þarf á endurhæfingaráætlun

Í máli Logan Smith Sigurðsson, fórnarlambs mansals og formanns Stop the Traffik Iceland, kom fram að oft væri litið á mansal sem útlendingavandamál hér á landi. Því þurfi sem flestir að koma að borðum við ákvarðanatöku. 

Hún sagði að sjónarhorn væri mikilvægt, ekki væru allir útlendingar í sömu hættu en sumir búi við veikara samfélagsnet, mismunun í húsnæðismálum og jafnvel heilbrigðisþjónustu. 

Logan sagði lagalega ferlið í lagi hér, en koma þyrfti á endurhæfingaráætlun, stuðningi við fólk að komast þarf aftur inn í samfélagið. Það megi ekki gera lítið úr þessum málum hér, þótt tölurnar séu lágar, mansal sé stórhættulegt.