Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gegnheilt glæsipopp

Mynd með færslu
 Mynd: Hans Alan og Ólöf Erla - Astronauts

Gegnheilt glæsipopp

27.02.2021 - 11:56

Höfundar

Astronauts er önnur breiðskífa Red Barnett sem hefur verið listamannsnafn Haraldar V. Sveinbjörnssonar. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Ég man svo vel eftir Shine, fyrstu plötu Red Barnett (apríl, 2015). Afskaplega vel samið og útsett popp af framsæknara taginu. Ég var að fletta upp dómi eftir mig en fann engan. Ástæðan? Ég var enn í Skotlandi og því ekki kominn á þessa vakt!

Þannig að nú fæ ég tækifæri til að setja niður nokkur orð um þessa tónlist og finnst það ekki leiðinlegt. Haraldur hefur verið viðloðandi íslenska tónlistarbransann í hartnær þrjá áratugi í gegnum hin ýmsu verkefni en þetta sólóverkefni fæddist um aldamótin er hann stundaði nám í Lundi. Téð Shine var verk einyrkja en nú er komið band þó að Haraldur sjái enn um að semja að mestu, útsetja og taka upp. Platan var tekin upp í Wales og í Reykjavík og lagði Silli Geirdal þar gjörva hönd á plóg. Í sextettinum Red Barnett er mikið mannval en hann skipa Ásgeir Ásgeirsson, Daði Birgisson, Diddi Guðnason, Finnur Beck, Hannes H. Friðbjarnarson og svo Haraldur sjálfur sem syngur plötuna. Auk þeirra koma fram á plötunni Sigrún Sif Jóelsdóttir söngkona, saxafónleikararnir Steinar Sigurðsson og Óskar Guðjónsson, kammerkórinn Hljómeyki og Strengjakvartettinn Lýra.

Mig langar til að byrja á því að segja að þetta er afskaplega góð plata. Þeir sem hafa smekk fyrir nostursömu, framsæknu og útsettu poppi, hvar glúrnin og gæðastaðallinn ríða ekki við einteyming, ættu að leggja við hlustir og það strax. Platan byrjar með laginu „Sky“, lötrandi píanó og Haraldur syngur með vélrænni röddu. Nokkurs konar inngangsstef en svo er farið í „Astronaut“. Haraldur syngur nú með blíðri röddu og ég heyri Elbow, jafnvel Flaming Lips. Lagið er byggt upp hægt og rólega, stígandi út í gegn þar til lagið springur út með látum, margar raddir, strengir og ég veit ekki hvað. En þó að mikið sé í gangi er smekklegt jafnvægi á öllu. „For a Friend“ er dægileg, ljúfsár smíð. Aftur kemur reynsla Haraldar sem upptökustjóra og útsetjara sér vel. Það er heilmikið í gangi í laginu nefnilega en allt í hárfínu jafnvægi, aldrei of eða van. „Turning Up“ er hins vegar hálfgildings rokkari, þó í millitempói sé. Og þannig vindur plötunni áfram. „Julie“ er falleg ballaða, rúllar áfram með reisn og strengir og rafgítarar styðja hárrétt við. Platan heldur áfram í þessari blöndu og ekki er hægt að tala um snöggan blett lagasmíðalega séð. Nefni að endingu „Serenade“ hvar Hljómeyki á frábært mót.

Til að draga saman, virkilega vandað og metnaðarfullt verk. Alla leið. Og aldrei nokkru sinni er þetta gerilsneytt eða fráhrindandi, þrátt fyrir íburðinn. Nei, það er nefnilega mikið og stórt hjarta í þessari plötu, höfum það á tandurhreinu. Vel gert geimfari!