Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Enn tvær sviðsmyndir eftir stöðufund

Mynd: rúv / rúv
„Hættumatið er áfram þetta sama,“ sagði Víðir Reynisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, að loknum stöðufundi Veðurstofunnar og almannavarna. Tvær sviðsmyndir eru undir, sagði hann. Önnur er sú að hrinan haldi áfram með hættu á skjálftum yfir fimm, sem geta leitt til þess að lausamunir falli úr hillum og slasi fólk. Hin sviðsmyndin er sú að virknin færist austar og að stórir skjálftar gætu orðið milli Kleifarvatns og Bláfjalla, allt að 6,5.

Víðir sagði að svo stór skjálfti, ef af yrði, myndi hafa áhrif á miklu stærra svæði. Þá væri þó ekki horft til þess að hús myndu hrynja, þótt þau kynnu að skemmast. „En fyrst og fremst eru það þá lausamunir sem falla, stærri munir sem geta fallið í slíkum skjálfta. Þá erum við að tala um hillusamstæður og annað slíkt. Fólk þarf að huga vel að aðstæðum heima hjá sér.“

Víðir sagðist hafa séð myndir á samfélagsmyndum í morgun þar sem fólk hefði tekið stóra muni úr hillum meðan á hrinunni hefur staðið. „Það er auðvitað mjög gott en það er ekkert vit í því að setja þá síðan bara aftur upp í hillu þegar þessari hrinu lýkur. Svona skálftar geta komið algjörlega án fyrirvara.“

Eins og staðan er núna eru engin gögn sem benda til þess að eldgos sé yfirvofandi, sagði Víðir en áfram er verður að gera ráð fyrir skjálftavirkni. „Nú þurfum við að gera heimilin okkar örugg og vinnustaðina örugga.“