Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Árangur næst í umhverfi sem fyllir fólk ástríðu“

Mynd með færslu
 Mynd: Karítas Sigvaldadóttir
Ráðstefna Ungra athafnakvenna í dag „Frá aðgerðum til áhrifa - Vertu breytingin“ er sú fyrsta sem haldin er með gestum í Hörpu frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á. Ráðstefnan var haldin í Norðurljósasal og var einnig streymt á vefnum. 

Markmið félagsins er að styrkja stöðu og framtíð ungra kvenna sem stjórnendur og þátttakendur í atvinnulífinu. 

Fyrirlesarar á ráðstefnunni voru þær Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Festu, Caritta Seppa stofnandi og framkvæmdastjóri Tespack, Emma Holten aktivisti og pólitískur ráðgjafi hjá Women's Council í Danmörku.

Jafnframt tóku til máls þær María Bjarnadóttir lögfræðingur og doktorsnemi, Salam Al-Nukta frumvöðull í valdeflingu kvenna og Sigurlína Ingvarsdóttir, tölvuleikjaframleiðandi hjá Bonfire Studios. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem jafnframt fer með jafnréttismál, flutti opnunarávarp þar sem hún sagði að konur þyrftu ekki að vera framúrskarandi til þess að ná árangri.

Það mætti klúðra, treysta innsæinu og fylgja maganum. „Þegar okkur mistekst þurfum við að standa saman, því samstaða kvenna hefur skilað ótrúlegum árangri hingað til,“ sagði Katrín.

Hún viðurkenndi fyrir salnum að hún kynni til dæmis alls ekki að borða með hnífapörum og það hafi oft komið henni í vandræði eftir að hún varð forsætisráðherra. 

Þær Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Lyfju og og Sigyn Jónsdóttir fyrrum formaður Ungra athafnakvenna ræddu saman um framþróun í takt við ástríðu.

Í máli Sigríðar kom fram að hún hefur þrjú atriði að leiðarljósi, sem hafa skilað henni árangri, vinnusemi, hugrekki og viðhorf. „Ef þú ert að vinna í umhverfi sem fyllir þig af ástríðu þá nærðu árangri,” sagði Sigríður.

Þær Emma Holten og María Bjarnadóttir ræddu hvernig þær hafa nálgast sama markmið með ólíkum aðferðum. Þær voru á einu máli um að álag fylgdi því að vera opinber femínisti.

Þær sögðu nauðsynlegt vera fyrir baráttuna að hafa húmor og að fá útrás í leiðinni.