Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segir að ræða þurfi áhrif launabreytinga á verðbólguna

26.02.2021 - 19:51
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Fjármálaráðherra segir að ræða þurfi af fullri alvöru hvaða áhrif launahækkanir hafi haft á verðbólgu að undanförnu. Hann segir mikil vonbrigði að hlutur húsnæðis aukist þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda.

Verðbólga síðustu tólf mánuði mælist 4,1 prósent og er því enn yfir fjögurra prósenta þolmörkum Seðlabankans. Þegar litið er til Evrópu var verðbólgan í síðasta mánuði einungis hærri í Tyrklandi og Póllandi.

„Maður hefur auðvitað ákveðnar áhyggjur af því að húsnæðisliðurinn er að hækka og sérstaklega þegar það er vegna skorts á framboði. Það ætti að vera auðleysanlegt mál og reyndar verð ég að lýsa yfir miklum vonbrigðum með að það sé skortur á framboði þegar stjórnvöld og vinnumarkaðurinn lágu yfir þessum málum hérna fyrir tveimur árum síðan og voru einmitt að reyna að tryggja að slíkir hlutir myndu ekki gerast,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.

Bjarni segir nauðsynlegt að skoða undirliggjandi áhrifaþætti. „Kaupmáttur launa hefur aldrei í sögunni verið hærri en einmitt nú og launahækkanir hafa verið töluverðar. Við þurfum að spyrja okkar að því að hvaða marki launabreytingar í landinu eru að þrýsta á verðbólguaukningu og ræða það af fullri alvöru,“ segir Bjarni.

Seðlabankinn spáir því að verðbólgan gangi niður á næstu mánuðum. Það gerir Íslandsbanki einnig, bæði vegna þess að krónan hefur styrkst og er stöðugri en einnig vegna þess að fjármálamarkaðurinn og almenningur telja ástandið tímabundið. „Enn sem komið er eru væntingar til þess að þetta sé svona skot sem hjaðni en það þarf að fylgjast mjög vel með þessu,“ segir Bjarni.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV