Óttast að verða háð kynlífstækjum

Mynd: We-Vibe / We-Vibe

Óttast að verða háð kynlífstækjum

26.02.2021 - 11:35

Höfundar

Kynlífstæki geta verið skemmtileg viðbót við kynlíf og eru sífellt að verða vinsælli. Kynlífstækjaverslanir merkja sérstaklega mikla sölu á COVID-tímum þar sem mun fleiri eru heima við og hafa meiri tíma aflögu. Indíana Rós kynfræðingur og Mikael Emil ræða helstu kynlífstækin sem fólk kaupir sér í hlaðvarpsþættinum Klukkan sex. 

Titrari, dildó, egg, rúnkmúffa, typpahringur, kynlífsdúkkur og tæki til endaþarmsörvunar eru meðal þeirra tækja sem eru vinsæl. Kynlífstæki geta verið skemmtileg viðbót í kynlífi fólks. Þau koma ekki endilega í staðinn fyrir eitthvað annað en mörg þurfa þessa auknu örvun sem kynlífstæki geta gefið og það er í góðu lagi. Sum kynlífstæki geta einnig veitt fötluðu fólki aukið aðgengi að sjálfsfróun og örvun í kynlífi. Þá eru til dæmis sum tæki með lengra handfangi og geta nýst fólki sem á erfitt með að veita örvun eða ná til kynfæra sinna eða þeirra sem þau eru með. 

En er eitthvað af þessu sem við verðum öll að eiga eða þarf enginn kynlífstæki? „Maður þarf ekkert að eiga kynlífstæki,“ segir Indíana Rós. Þrátt fyrir mikla og aukna umræðu um kynlífstæki þá séu mörg sem vilja ekki nota þau og að það sé í góðu lagi. Sum hafa haft áhyggjur af því að verða háð kynlífstækjum en rannsóknir benda til þess að það séu óþarfa áhyggjur. Þurfi fólk að nota kynlífstæki til að geta yfirhöfuð fengið fullnægingu er það allt í besta lagi, því það geti oft gefið þá örvun sem kynfærin geta þurft, sem fólk nær vanalega ekki með beinni snertingu.

Indíana Rós Ægisdóttir og Mikael Emil Kaaber ræddu kynlífstæki og fjölbreytileika þeirra í Klukkan sex. Þátturinn er aðgengilegur á vef UngRÚV og öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Ekki til nein töfralausn til að verða góð í rúminu