Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kringlumýrarbraut er einskismannsland kvöldsins

Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Vaka Helgadóttir - Gettu betur

Kringlumýrarbraut er einskismannsland kvöldsins

26.02.2021 - 10:29

Höfundar

Síðasta umferð átta liða úrslita Gettu betur fer fram í kvöld þegar Menntaskólinn í Hamrahlíð og Verzlunarskóli Íslands takast á um pláss í undanúrslitum. Liðin tvö eru firnasterk og því er von á spennandi keppni.

Versló og MH hafa löngum verið taldir erkifjendur íslenskra framhaldsskóla en einungis 500 metrar eru á milli skólanna í beinni loftlínu. Það fór þó lítið fyrir einhverjum skólaríg þegar keppendur liðanna tveggja voru heimsóttir á dögunum. 

Lið Menntaskólans við Hamrahlíð er skipað þeim Ara Hallgrímssyni, Júlíu Helgu Kristbjarnardóttur og Ísleifi Arnórssyni. Liðið hefur sinnt æfingum af kappi undanfarið en státar meðal annars af góðri þekkingu á raungreinum, sögu, landafræði og stjórnmálum. Lið MH þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Kvennó í 16 liða úrslitum Gettu betur í fyrra og liðsmenn þreyta því frumraun sína í sjónvarpssal í kvöld. 

 

Mynd: Kolbrún Vaka Helgadóttir / RÚV

Liðsmenn Verzlunarskólans eru þau Eiríkur Kúld Viktorsson, Gabríel Máni Ómarsson og Sigurbjörg Guðmundsdóttir. Eiríkur og Gabríel voru jafnframt í liðinu í fyrra en þá þurfti Versló að lúta í lægra haldi fyrir MR í undanúrslitum. Þess má geta að MR varð meistari Gettu betur árið 2020. Sigurbjörg er ný í liðinu og tekur að sér að fullkomna þekkinguna á öllu sem tengist Íslandi og konum, þvert á Eirík sem er að eigin sögn gagnslaus þegar kemur að landafræði en er með gelluspurningar á hreinu. 

Mynd: Kolbrún Vaka Helgadóttir / RÚV

Síðasta umferð átta liða úrslita Gettu betur fer fram í beinni útsendingu klukkan 19:40 á RÚV í kvöld.