Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Könnun sýnir fimmta mesta umferðaröryggi á Íslandi

26.02.2021 - 17:27
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Ísland er í fimmta sæti hvað umferðaröryggi varðar samkvæmt könnun ástralska fyrirtækisins Zutobi. Fyrirtækið tók saman tölur um umferðarslys og rannsakaði umferðaröryggi í 50 löndum um víða veröld.

Frá því er greint á vef FÍB að hvert land fái einkunn á kvarðanum 1 til 10 og teknir séu saman þættir á borð við leyfilegan hámarkshraða, notkun öryggisbelta og áfengisnotkun undir stýri. 

Könnun Zutobi sýnir að Noregur trónir á toppnum með góða fyrstu einkunn 8,21 en einkunn Íslands er 7,81. Japan, Svíþjóð og Eistland eru í sætunum á milli Noregs og Íslands. Bandaríkin fá einkunnina 5,09.

Næstum hver einasti Japani notar bílbelti að því er fram kemur í könnuninni, eða 98% en 93% Íslendinga nota belti. Í Noregi verða 2,7 dauðsföll í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa, tæplega þrjú í Svíþjóð en 6 á Íslandi.

Langversta hlutfallið er í Suður-Afríku þar sem tæplega 26 dauðsföll verða á hverja 100 þúsund íbúa og áfengi kemur við sögu í næstum sex af hverjum tíu banaslysum.

Á Tælandi er vegakerfinu illa haldið við, bílbelti sjaldan notuð og ökumenn mjög gjarnir á að aka undir áhrifum áfengis og annarra fíkniefna. Þar verða því, samkvæmt könnun Zutobi, flest slys og banaslys í umferðinni.