Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gerði „ekki mistök“ en segir dagbókarfærsluna sérstaka

Mynd: Þór Ægisson / RUV
Dómsmálaráðherra segist ekki hafa gert mistök þegar hún hringdi í lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu vegna Ásmundarsalarmálsins. Þá hafi hún ekki sett lögreglustjórann í erfiða stöðu með símtalinu. Hún segir að dagbókarfærsla lögreglunnar hafi verið sérstök.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, talaði í tvígang við Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, á aðfangadag, eftir að lögreglan greindi fjölmiðlum frá sóttvarnarbroti í Ásmundarsal. Í dagbókarfærslu lögreglu kom fram að ráðherra hefði verið í samkvæmi í salnum og síðar kom í ljós að sá ráðherra var Bjarni Benediktson fjármálaráðherra. Áslaug Arna hefur verið boðuð á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis vegna málsins.

„Ég á mikið af samtölum við lögreglustjórana og mjög gott og mikilvægt samstarf til að fá upplýsingar um spurningar sem að mér beinast sem æðsta yfirmanni lögreglunnar,“ segir Áslaug Arna.

Þannig að það voru ekki mistök af þinni hálfu að hafa samband á aðfangadag?

„Nei ég tel það ekki mistök að afla mér upplýsinga um mál sem ég vil vera vel upplýst um áður en ég tjái mig.“

„Hún var sérstök“

Ef þú hringir í lögreglustjóra á aðfangadag þá hlýtur tilefnið að vera þetta tiltekna mál?

„Tilefnið var dagbókarfærslan sem vakti athygli fjölmiðla. Og fjölmiðlar spurðu mig hvort hún væri eðlileg. Ég þekkti ekki verklag dagbókarfærslna lögreglunnar og spurði aðeins um það.“

Fannst þér þessi dagbókarfærsla óeðlileg?

„Hún var sérstök. Og lögreglan hefur orðað það þannig og endurskoðað verklagið.“

Léstu í ljós þá skoðun þína í samtalinu?

„Nei.“

En hefurðu skilning á þeirri umræðu sem upp er komin í ljósi þess að fjármálaráðherra átti þarna hlut að máli?

„Fólk vill kannski setja þetta í annað samhengi og er að reyna að láta í það liggja að ég hafi haft einhver afskipti af þessu sem er auðvitað kolrangt.“

Telurðu að þú hafir sett lögreglustjórann í erfiða stöðu?

„Nei ég spurði bara um verklag um upplýsingagjöf og persónuverndarsjónarmið sem voru spurningar sem mér bárust,“ segir Áslaug Arna, en viðtal við hana um málið má sjá í spilaranum hér að ofan.