Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fjórir drukknuðu í stöðuvatni í Svíþjóð

26.02.2021 - 00:57
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Fjórir karlmenn á sjötugs- og áttræðisaldri eru látnir eftir að þeir féllu ofan í vök í vatninu Vallsjön í sunnanverðri Svíþjóð. Lögreglu barst tilkynning um málið klukkan hálf sjö í kvöld að staðartíma.

Fréttastofa sænska ríkissjónvarpsins SVT hefur eftir sjúkraflutningamanninum Göran Melin að fyrstu viðbragðsaðilar hafi séð mann í vökinni. Eftir að honum var komið á þurrt fundust hinir þrír mennirnir. Lífgunartilraunir voru gerðar á staðnum og mönnunum loks komið á sjúkrahús. Lögregla staðfesti klukkan hálf ellefu að mennirnir væru allir látnir.

Óvíst er hvernig slysið varð. Óvenju mikil hlýindi hafa verið í sunnanverðri Svíþjóð eftir hörku frost síðustu vikur. Fólk hefur notið þess að ganga á frosnum vötnum, en ísinn hefur þiðnað hratt síðustu daga. Hitamet var slegið í landinu í dag þegar hitinn mældist 16,8 gráður í Kalmar, rúmum hundrað kílómetrum suðaustur af Vallsjön. Aldrei hefur mælst hærri hiti í febrúar í Svíþjóð.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV