Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Félög eldri borgara vilja örugg sæti á listum flokkanna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Öllum stjórnmálaflokkum hefur verið send áskorun um að tryggja eldri borgurum örugg sæti á framboðslistum fyrir alþingiskosningarnar í haust. Eldra fólk vilji komast á þing til að hafa áhrif.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landssambandi eldri borgara en undir áskorunina skrifa Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður landssambandsins og formenn nokkurra stærstu félaganna innan vébanda þess.

Í áskoruninni segir að eldri borgarar hafi engin samningsréttindi um kjör sín, margir hafi laun undir lágmarkslaunum og búi við tvöfalt skattkerfi, hjá skatti og Tryggingastofnun ríkisins.

Bent er á að fólk búi almennt við betri heilsu og vilji því og geti haldið áfram að vinna en að löggjafinn gefi því lítinn gaum.

Nú vilji eldra fólk hafa áhrif á stöðu sína og því er skorað á stjórnmálaflokkana að fjölga því á listum. Tímabært sé að stofna „öldungadeild“ á Alþingi í anda öldungaráða sveitarfélaganna í landinu. 

„Fyrir hverjar kosningar heita frambjóðendur allra flokka því að bæta hag eldra fólks, en þegar kemur að því að semja stjórnarsáttmálana eftir kosningar, lenda málefni eldri kynslóðarinar yfirleitt aftarlega á forgangslistanum.“

Fram kemur í tilkynningunna að til standi að ræða á næstu vikum við forystufólk flokkanna um áherslur þeirra í málefnum eldri borgarar í komandi kosningum.

Með því að fjölga fólki á efri árum á framboðslistum sýni flokkarnir í verki að þeir meti þekkingu og reynslu þessa fólks til jafns við þekkingu og reynslu annarra aldurshópa.

Reiknað er með að hlutfall þess fólks sem er eldra en 67 ára muni hækka í 18,7% af mannfjöldanum á næstu 25 árum. Þannig mun fjölga í þeim hópi úr úr um  40 þúsund upp í  tæplega 80 þúsund. 

Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands var meðalævilengd karla 81ár árið 2019 og meðalævilengd kvenna 84,2 ár.