Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bólusetningarvottorð brátt viðurkennd í Evrópu

Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson / RÚV
Unnið er að því að rafrænt bólusetningarvottorð verði tekið gilt um allan heim. Ungverjaland er eina landið sem tekur íslensk vottorð gild og þar sleppa Íslendingar við skimun og sóttkví. Sviðstjóri hjá Landlækni segist vona að vottorðin verði orðin samræmd fyrir vorið í Evrópu og fleiri vestrænum ríkjum.

Yfir 12 þúsund full bólusettir

Í morgun höfðu 12.564 Íslendingar verið full bólusettir og um sjö þúsund fengið fyrri sprautuna. Rúmlega 13 þúsund hafa verið sprautaðir með bóluefni frá Pfizer, yfir 2.600 frá Moderna og tæplega fjögur þúsund með bóluefni frá AstraZeneca. Áætlað er að bóluefni fyrir samtals 190.000 manns verði komið hingað fyrir lok júní.

Sækja vottorðin á Heilsuveru

En hver staðan hér þegar kemur að bólusetningarvottorðum? Ingi Steinar Ingason, sviðstjóri miðstöðvar rafrænna lausna hjá embætti landlæknis, segir að þeir sem hafi verið fullbólusettir og þeir sem hafi fengið COVID geti skráð sig inn á Heilsuveru og sótt um rafrænt vottorð þar. Þeir sem hafa mælst með mótefni fá einnig send vottorð.

„Þannig að það eiga í raun allir sem eru í þessari stöðu að hafa fengið COVID, bólusettir eða með mótefni, að vera með með rafræn vottorð í höndunum.“

Íslendingar sleppa við skimun og sóttkví í Ungverjalandi

Það má búast við því ef fram heldur sem horfir að Íslendingar full bólusettir verði meira á faraldsfæti. Björninn er þó ekki unninn þó að farið sé yfir landamæri með þetta vottorð upp á vasann. 

„Mér vitandi er það bara eitt annað land en Ísland sem tekur vottorðin gild þannig að þú sért undanþeginn sóttkví og sýnatökum. Það er Ungverjaland.“

Svona lítur bólusetningarvottorðið út.

Viðurkennd í Evrópu fyrir vorið

En það standa vonir til að fleiri lönd bætist í hópinn, jafnvel allur heimurinn.

„Það sem við erum að vinna í með þetta rafræna vottorð okkar er að tryggja það að það verði tekið gilt út um allan heim. Við erum í samstarfi og viðræðum við alþjóðastofnanir sem hafa verið að byggja upp ákveðnar staðlaðar lausnir sem við getum sett inn í okkar vottorð,“ segir Steinar Ingi. Lausnin sem nú er verið að vinna að með Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni er að ákveðið strikamerki verði í vottorðinu. „Það virkar hvort sem að þú ert með það í símanum eða hefur prentað það út. Landamæravörður getur skannað þennan kóða og staðfest að þetta sé ófalsað og fullgilt vottorð.

En er líklegt að þessu verði komið á og hvað er það helst sem getur torveldað það?

„Mér finnst mjög líklegt að þetta muni ganga eftir fyrir vorið í Evrópu og í öðrum vestrænum löndum,“ segir Steinar Ingi. Hann segir að það séu ýmsar hindranir í löndum sem eru ekki eins tæknilega búin og við og fleiri. „Það eru til dæmis ekki gefin út vegabréf í öllum löndum. Á evrópska vottorðinu stendur að það eigi að vera vegabréfanúmer til þess að það sé hægt að tengja það við vegabréfið sem þú sýnir á landamærunum,“ segir Ingi Steinar.