Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aprílsólarkuldi – Elísabet Jökulsdóttir

Mynd: RÚV / RÚV

Aprílsólarkuldi – Elísabet Jökulsdóttir

26.02.2021 - 15:06

Höfundar

Aprílsólarkuldi er sjálfsævisöguleg skáldsaga um unga stúlku sem lendir í rússibanareið áfalla sem leiðir til áfengis- og vímuefnaneyslu og endar með því að aðalpersónan, Védís, missir alla stjórn á tilveru sinni. Hún ranglar um bæinn full ranghugmynda um sjálfa sig og umhverfi sitt og er að endingu svipt sjálfræði og lögð inn á geðsjúkrahús.

Aprílsólarkuldi er þriðju persónu frásögn þar sem höfundur heldur sjónarhorninu þétt upp við aðalpersónuna, Védísi, sem er í raun Elísabet sjálf. Allar aðrar persónur sögunnar eru raunverulegar en Elísabet kýs að breyta nöfnum þeirra. Í viðtalinu segir Elísabet að hún hafi í næstum því áratug reynt að skrifa um reynslu sína af því að lenda í geðhvörfum í fyrstu persónu frásögn. 

„Ef ég hefði notað „ég“ til að segja þessa sögu og hefði sagt hana sem heimildasögu þá hefði hún orðið ofboðslega þykk. Þessi bók er stutt og í henni er líka það „dræf“, sem einkenndi þennan tíma þegar svo margt gerðist á stuttum tíma. Ég skrifaði á endanum söguna bara eins og hún var.“

Skáldsagan Aprílsólarkuldi hefur náð miklum vinsældum og Elísabet fékk í janúar Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina. Í röksemd dómnefndar segir meðal annars að höfundur sýni „gott vald á skáldskaparforminu,“ að   „sagan einkennist af ríku myndmáli,“  og mikilli „næmni í blæbrigaðríkum texta átakanlegrar sögu.“ 

Í þættinum Bók vikunnar ræðir Jórunn Sigurðardóttir við Hólmfríði Maríu Bjarnadóttur bókmenntafræðing og ritstjóra og Gunnþórunni Guðmundsdóttur prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hólmfríður skrifaði fyrir fáeinum árum BA-ritgerð um valin verk verk Elísabetar og Gunnþórunn hefur í sínum fræðum ekki síst einbeitt sér að sjálfsævisögulegum skáldverkum sem byggjast á áföllum.  

Elísabet Jökulsdóttir hefur sent frá um það bil þrjátíu verk af margvíslegum toga. Hún hefur skrifað ljóð og leikrit, örsögur, smásögur, heimildasögu og stöku skáldsögu og hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir. Árið 2008 fékk hún Fjöruverðlaunin fyrir Heilræði lásasmiðsins, sem er bersögul og nærgöngul frásögn af sambandi tveggja ólíkra einstaklinga. Hún fékk Menningarverðlaun DV árið 2015 fyrir ljóðabókina Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett og ári síðar var sú bók tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Elísabet Jökulsdóttir bauð sig fram til embættis forseta Íslands árið 2016.