Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Útboð á ljósleiðurunum í þágu öryggis og lægra verðs

25.02.2021 - 14:13
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Bæta á ljósleiðaravæðingu landsins og auka samkeppni með útboði á tveimur ljósleiðaraþráðum í eigu Atlantshafsbandalagsins.

Póst- og símamálastofnun hóf að leggja ljósleiðara hringinn í kringum landið árið 1989, var kerfið tekið í notkun 1991 og gengur þessi ljósleiðari undir nafninu NATO ljósleiðarinn. Þetta er strengur með átta þráðum, fimm eru í eigu Mílu. Nú stendur til að bjóða tvo til viðbótar út. Stefnt er að því að útboðið hefjist í maí og niðurstaða liggi fyrir í ágúst.

„En stóru fréttirnar eru þær að það er ekki lengur verið að tala um að leigja út einn þráð heldur tvo þræði sem að veitir aukna möguleika á betri tengingu. Þrátt fyrir að það hafi verið unnið gríðarlega gott starf á undanförnum árum og áratugum, þá eru ennþá veikleikar og vonandi verður þetta til þess að leysa úr því“, segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Hann segir að þótt mikill árangur hafi náðst séu enn þéttbýlisstaðir með ófullnægjandi tengingu.

„Það sem liggur til grundvallar þessari vinnu er í rauninni tvennt, það er annars vegar að huga að þjóðaröryggi og netöryggismálum og hins vegar það að þetta nýtist sem best til þess að auka samkeppni og bæta tengingar.“

Ekki liggur fyrir hvort báðir ljósleiðaraþræðirnir verði leigðir sama aðila eða sitt hvorum. Haraldur Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins var formaður starfshóps sem utanríkisráðherra skipaði síðasta sumar um ljósleiðaramálefni, útboð og fleira.

„Ég myndi leggja til að það fari fram ákveðið forval þar sem að stjórnvöld, í sameiningu utanríkisráðuneyti og samgönguráðuneyti, kanni uppbyggingaráform fjarskiptafyrirtækja og ræði sig allavega til niðurstöðu um hvaða markmið menn hafa með útboðinu. Það gæti ráðið því hvernig verður staðið að því,“ segir Haraldur Benediktsson.

Hann kallar eftir aukinni samkeppni sem hann segir að ætti að lækka verð til notenda.

„Já, samkeppnin hefur tryggt okkur mjög hagstætt verð á fjarskiptum. Við erum að efla samkeppni, við trúum því að það bæti hag neytenda og fyrst og fremst bæti þjónustuna og aðgengið.“
 
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV