Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Úrskurður héraðsdóms um gögn Samherja ómerktur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landsréttur ómerkti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. desember um að Héraðssaksóknari ætti að fá afhentar upplýsingar og gögn um þjónustu sem KPMG veitti Samherja og dótturfélögum þess. Landsréttur úrskurðaði að málsmeðferð í héraðsdómi hefði ekki verið sem skildi því saksóknari var ekki boðaður til þinghalds og málsgögn lágu ekki fyrir. Því verður Héraðsdómur Reykjavíkur að taka málið til meðferðar að nýju.

Mbl.is greindi frá niðurstöðu Landsréttar í dag og birti úrskurðinn á vef sínum.

Héraðssaksóknari krafðist þess að fá gögnin afhent. Þau snúa að gerð skýrslu eða samantektar KPMG fyrir Samherja og dótturfélög fyrirtæksins. Þar var fjallað um reglur um milliverðlagningu. Jafnframt átti Héraðssaksóknari samkvæmt úrskurði héraðsdóms að fá upplýsingar og gögn um bókhald og reikningsskil Samherja, Samherja Holding og dóttur- eða hlutdeildarfélaga frá árinu 2011 til 2020, auk hvers kyns undir- eða frumgagna og tengdra vinnugagna og samskiptagagna. 

Samherji og Samherji Holding kærðu úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur til Landsréttar í síðasta mánuði. Landsréttur vísaði kæru Samherja frá þar sem fyrirtækin skorti heimild til að kæra úrsurðinn og Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu. 

Því næst kærði KPMG niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur til Landsréttar sem ómerkti úrskurðinn. Í úrskurði Landsréttar segir að dómari hafi látið sér nægja að tala við saksóknara Héraðssaksóknara í gegnum síma en ekki látið hann mæta til þinghalds. Sömuleiðis lágu málsgögn ekki fyrir. Það er ekki í samræmi við lög um meðferð sakamála. Í úrskurði Landsréttar er jafnframt tekið fram að dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hafi fallist á að taka málið fyrir án þess að varnaraðili yrði boðaður til þinghaldsins. 

„Samkvæmt framanrituðu var meðferð málsins í héraði svo áfátt að óhjákvæmilegt er að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar að nýju,“ segir í úrskurði Landsréttar.