Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þotur krónprinsins fluttu morðingja Khashoggis

25.02.2021 - 04:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Einkaþoturnar sem fluttu sádiarabísku aftökusveitina til og frá Tyrklandi til að drepa blaðamanninn Jamal Khashoggi voru í eigu krónprinsins Mohammed bin Salman. Þetta kemur fram í dómsskjölum sem fréttastofa CNN fékk að sjá. Innan við ári áður en Khashoggi var myrtur var eignarhald fyrirtækisins sem átti þoturnar fært í hendur krónprinsins.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í háleynilegum dómsskjölum sem notuð voru í einkamáli gegn fyrrverandi hátt settum leyniþjónustumanni í Sádi Arabíu fyrir kanadískum dómstól fyrr á árinu. Nokkur fyrirtæki í eigu sádiarabíska ríkisins saka Saad Aljabri um fjárdrátt.

Upplýsingar um eignarhald á þotunum hafa ekki birst áður. Þær sýna enn frekar fram á bein tengsl krónprinsins við morðið á Khashoggi.

Blaðamaðurinn var áður góður vinur konungsfjölskyldunnar, en fór svo að skrifa greinar gegn stjórnvöldum í heimalandinu. Hann bjó og vann í Bandaríkjunum, en fór í sendiráð Sádi Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi í október 2018. Þar ætlaði hann að sækja skjöl sem staðfestu hjúskaparstöðu hans, svo hann gæti kvænst unnustu sinni. Setið var fyrir honum inni í sendiráðinu og hann drepinn.

Þrýst á Biden

Þrýst hefur verið á Joe Biden Bandaríkjaforseta að ræða við Salman konung Sádi Arabíu um hlut sonar hans á morðinu á Khashoggi. Hvíta húsið staðfesti í gær að Biden ætli bráðum að heyra í konungnum. Bandaríkjastjórn gerir niðurstöður rannsóknar löggæslustofnana sinna á morðinu á Khashoggi opinbera á næstunni. Þar er talið að krónprinsinn verði sagður ábyrgur fyrir morðinu. Biden hefur lesið skýrsluna að sögn Guardian, og vill hann aðeins ræða við kónginn sjálfan.