Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segir skerðingar reka fólk út í sára fátækt

25.02.2021 - 23:02
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Þingflokksformaður Flokks fólksins segir skerðingar í almannatryggingakerfinu leiða hóp fólks út í sára fátækt, ljóst sé að ríkissjóður verði að leggja til mun meira fjármagn til að koma til móts við þá verst settu. Fjármálaráðherra segist gríðarlega stoltur af því félagslega öryggisneti sem almannatryggingakerfið sé þótt vissulega sé hægt að gera betur en til þess verði réttar forsendur að vera til staðar. En öryggisnet hins opinbera geti ekki gripið alla.

„Er hæstvirtur fjármálaráðherra virkilega stoltur af því að 266 þúsund krónur er ellilífeyrinn í dag og ef þú ert með búsetuskerðingu þá færðu 10 prósenta skerðingu ofan á það plús krónu á móti krónu skerðingu á allar tekjur eftir það,“ spurði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, á Alþingi í dag.

„Í augnablikinu erum við að reka ríkissjóð með yfir 300 milljarða halla,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. „Háttvirtur þingmaður talar um það sem eitthvert reginhneyksli að við setjum ekki tugi milljarða til viðbótar út í bætur til fólks en vandamálið er bara eitt háttvirtur þingmaður, það er bara þetta hér: við erum ekki enn að skapa næg verðmæti til þess að geta slíkum þörfum og slíkum væntingum.“

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV