Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fólk afþakkar að láta bólusetja sig með AstraZeneca

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Dæmi eru um að fólk hér á landi afþakki að láta bólusetja sig með bóluefni bresk/sænska lyfjafyrirtækisins AstraZeneca. Það telur aukaverkanir meiri eftir fyrri sprautuna og virkni þess minni.

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna. Hin bóluefnin tvö, sem notuð eru hér á landi eru Pfizer og Moderna sem hafa bæði sýnt um og yfir 95 prósent virkni.  Búið er að ljúka bólusetningu hjá rúmlega tólf þúsund manns.

Kemur út á eitt

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, tók fram að þótt rannsóknir bentu til þess að AstraZeneca hefði aðeins minni virkni væri munurinn ekki mikill og hann skipti ekki sköpum. Þá virtust aukaverkanir vera meiri eftir fyrstu sprautu en minni eftir seinni sprautuna. Þessu væri öfugt farið með hin bóluefnin tvö. 

„Þetta er því ekki stór munur og það er engin ástæða fyrir því að neita einu bóluefni umfram önnur,“ sagði Þórólfur.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, segir í samtali við fréttastofu að þetta séu ekki margir sem afþakki bóluefnið. Þó hefðu einhverjir ákveðið að bíða og sjá hvað annað væri í boði. „Þetta er bóluefni sem við tölum upp og er mjög gott og við höfum útskýrt fyrir fólki að viðbrögð líkamans við sprautunni séu mjög eðlileg því verið er að ræsa ónæmiskerfið.“

Þórólfur tók skýrt fram á upplýsingafundinum að fólk gæti ekki valið á milli bóluefna. Þeim sem væri boðið bóluefni AstraZeneca en afþökkuðu ættu það á hættu að lenda aftar í forgangsröðinni. 

Nýr kafli að hefjast 

Sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundinum að nú væri nýr kafli að hefjast þar sem markmiðið væri að tryggja að smit kæmist ekki inn í landið og  aflétta á sama tíma takmörkunum innanlands í hægum en öruggum skrefum.

Hann sagðist ánægður með nýjar reglur á landamærunum og langflestir sem hefðu komið til landsins eftir að þær tóku gildi hefðu verið með neikvætt COVID-próf.  Einn farþegi, sem var með 48 stunda gamalt neikvætt COVID-próf, hefði greinst með virkt smit í fyrri skimun á landamærunum.  „Og þetta er eitthvað sem við  þurfum að fylgjast með á næstunni.“

Þórólfur var á fundinum spurður út í stöðuna í nágrannalöndunum, meðal annars Svíþjóð þar sem kollegi hans, hinn umdeildi Anders Tegnell, hefur varað við hraðri útbreiðslu „breska afbrigðisins“. „Svíar hafa miklar áhyggjur af því að faraldurinn sé í vexti og þess vegna gripu þeir til harðra aðgerða í gær. Þeir hafa miklar áhyggjur af því að það geti verið uppsveifla í faraldrinum þar en ég vona að svo verði ekki.“

Verður alltaf ólíklegra að veiran leynist einhvers staðar

Hann var einnig spurður út í hvort hann teldi að veiran gæti verið einhvers staðar í leyni.

Enginn greindist með virkt smit í gær, fjórða daginn í röð og ekkert smit hefur greinst utan sóttkvíar síðan 1. febrúar.  „Eftir því sem lengri tími líður tel ég það ólíklegra að hún geti verið einhvers staðar. En það verður líka að hafa í huga að margir fá mjög lítil einkenni og við þurfum að halda vöku okkkar.“

Fundinum lauk svo með þeirri tilkynningu, sem var kannski viðbúin, að upplýsingafundum myndi fækka. Þeir voru tvisvar í viku en verða nú vikulega.  Næsti fundur er áætlaður á fimmtudaginn í næstu viku.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV