Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Afhenti Rússum gögn um þinghúsið í Berlín

25.02.2021 - 17:38
epa08968206 President of the German Parliament Bundestag Wolfgang Schaeuble speaks during a Commemoration Ceremony for the victims of the Holocaust in the Reichstag building, the seat of the German federal parliament (Bundestag), in Berlin, Germany, 27 January 2021. It is estimated that around 15 million Jews, Roma and Sinti, homosexuals, Slavs, handicapped individuals, political prisoners and others were killed in the Nazi genocide in the period during World War II.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Saksóknarar í Þýskalandi hafa ákært þýskan karlmann fyrir að hafa komið teikningum af þinghúsinu í Berlín til rússnesku leyniþjónustunnar. Talið er að tíðindin verði til þess að samskipti Rússa og Þjóðverja versni enn frekar.

Maðurinn, sem ákæruvaldið nefnir einungis Jens F, vann hjá fyrirtæki sem sér um eftirlit með ýmiss konar rafbúnaði í þinghúsinu. Í tilkynningu saksóknara segir að hann hafi aflað sér ýmissa upplýsinga um húsið, þar á meðal teikninga, og afhent þær starfsmanni rússneska sendiráðsins í Berlín, sem vinnur aðallega fyrir rússnesku leyniþjónustuna GRU. 

Þýska leyniþjónustan hefur iðulega varað við að Rússar reyni að komast yfir viðkvæmar upplýsingar, meðal annars með því að brjótast inn í tölvukerfi. Angela Merkel kanslari greindi þinginu frá því síðastliðið vor að hún hefði orðið fyrir slíkum tölvuárásum. Brotist var inn í tölvukerfi þýska þingsins árið 2015. Þarlendir fjölmiðlar segja að rússneski leyniþjónustumaðurinn og hakkarinn Dmitry Badin hafi staðið að henni. Hann er á lista eftirlýstra tölvuglæpamanna hjá bandarísku alríkislögreglunni FBI fyrir svipuð innbrot. 

Gert er ráð fyrir að samskipti Rússa og Þjóðverja eigi eftir að versna enn frekar eftir þessi nýjustu tíðindi. Þau hafa verið kuldaleg að undanförnu, sér í lagi eftir að eitrað var fyrir Alexei Navalny, einum hvassasta gagnrýnanda ráðamanna í Moskvu. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV