Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

3 ára fangelsi fyrir nauðgun inni á kvennasalerni

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Reebar Abdi Mohamm, karlmaður á þrítugsaldri, var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að nauðga konu inni á kvennasalerni skemmtistaðar í Reykjavík í febrúar fyrir tveimur árum. Héraðsdómur segir manninn hafa ráðist með freklegum hætti gegn kynfrelsi konunnar og gerði honum að greiða henni þrjár milljónir í miskabætur.

Maðurinn neitaði sök en héraðsdómur taldi framburð hans ótrúverðugan.

Á það er bent að hann hefði í skýrslutöku hjá lögreglu sagst hafa hitt konuna á dansgólfi skemmtistaðarins en fyrir dómi hefði hann borið að hann hefði hitt hana við salernin á neðri hæð hússins. 

Framburður konunnar hefði hins vegar verið trúverðugur og í samræmi við skýrslugjöf um meginatriði málsins.

Dómurinn horfði jafnframt til þess að vinur konunnar, öryggisvörður á skemmtistaðnum og lögreglumenn sem og læknir og hjúkrunarfræðingur á Neyðarmóttöku hefðu öll borið um ástand konunnar þessa nótt. Hún hefði verið í miklu uppnámi og grátið mikið.

Héraðsdómur sagði framferði mannsins hafa verið ófyrirleitið. Hann hafi setið um konuna, sem sýnilega hafi verið mjög ölvuð, og nauðgað henni. Hann hafi ráðist með freklegum hætti gegn kynfrelsi konunnar og eigi sér engar málsbætur. Var hann því dæmdur í þriggja ára fangelsi og gert að greiða konunni 3 milljónir króna.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV