Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

18 fyrirtæki yfirgefa Nord Stream 2

25.02.2021 - 01:18
Mynd með færslu
 Mynd: en.kremlin.ru
Átján evrópsk fyrirtæki hafa annaðhvort hætt störfum við lagningu Nord Stream 2 jarðgasleiðslunnar eða ætla að hætta vegna yfirvofandi viðskiptaþvingana Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins sem lögð var fyrir Bandaríkjaþing fyrir helgi.

Deutsche Welle hefur eftir Ned Price, talsmanni utanríkisráðuneytisins, að þetta sýni að aðgerðir Bandaríkjastjórnar skili árangri. Áfram verði haldið að fylgjast með fyrirtækjum sem vinna við lagningu Nord Stream 2.

Bandaríkjastjórn hefur hótað þeim fyrirtækjum sem taka þátt í lagningu leiðslunnar á einn eða annan hátt viðskiptaþvingunum. Leiðslan liggur frá Rússlandi, í gegnum Eystrasalt, og til Þýskalands. Hingað til hafa stjórnvöld í Washington aðeins lagt þvinganir á rússneska fyrirtækið KVT-RUS, sem á rússneska skipið Fortuna. 

Meðal helstu ástæðna fyrir andstöðu Bandaríkjastjórnar við Nord Stream 2 er að með henni telur hún Evrópubúa verða of háða Rússum varðandi orku. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og stuðningsmenn úr flokki hennar segja Rússa hins vegar háðari því að selja orkuna en Þjóðverja að sækja hana. Með orkukaupunum séu Þjóðverjar með fleiri vopn í búri sínu en viðskiptarefsingar gagnvart Rússum.

Aukinn þrýstingur hefur verið á Þýskalandsstjórn undanfarið vegna máls Alexei Navalny. Frakkland og fleiri Evrópuríki hafa krafist þess að Þjóðverjar hætti við lagningu Nord Stream 2 vegna meðferðar Rússlandsstjórnar á stjórnarandstæðingnum Navalny. Fyrr í þessum mánuði bað þýski efnahagsráðherrann Peter Altmaier um að fólk hætti að tengja mál Navalnys við framkvæmdina. Viðskiptaengsl og verkefni séu eitt og alvarleg mannréttindabrot og viðbrögð Þjóðverja við þeim allt annað.