Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ytra og innra eftirlit hefði mátt vera virkara

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands hefði getað notað ákveðinn hluta innra gæðaeftirlits síns betur. Þá hefði virkara eftirlit Landlæknisembættisins mögulega haft jákvæð áhrif á gæða- og umbótastarf hjá Leitarstöðinni.

Þetta er meðal niðurstaðna í hlutaúttekt embættis landlæknis á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins sem birt var í dag. Samkvæmt henni urðu bæði mannlegir og kerfislægir þættir til þess að sýni úr leghálsskimun voru ranglega greind. Einna þyngst vegur að nota hefði mátt innra gæðaeftirlit betur til að hafa yfirsýn yfir gæði frumugreininga og starfshæfni einstakra starfsmanna á því sviði. Skýrsluhöfundar segja að úrræði í mannauðsmálum hefðu mátt vera markvissari og tiltaka að aukinnar óvissu hafi gætt vegna fyrirhugaðra breytinga á starfseminni, þegar hún fluttist frá Krabbameinsfélaginu til hins opinbera, og endurtekinna skammtímasamninga. Það gæti hafa haft hamlandi áhrif á gæða- og umbótastarf. Að auki var ekki nægilegt ytra eftirlit til staðar og efla hefði þurft atvikaskráningu. 

Í úttektinni kemur fram að stefnumörkun, gæðastefna og starfslýsingar voru frá árinu 2009 og höfðu ekki verið uppfærðar sem skildi. Skýrsluhöfundar segja að ekki hafi verið nægilega formleg umgjörð um gæða- og öryggismál og engin rafræn gæðahandbók til staðar. 

Jákvætt þykir þó að starfsfólk hafði mikinn faglegan metnað, tilkoma hálfsjálfvirkrar smásjár jók gæði og afköst auk þess sem mönnun var almennt góð, þó það hafi reyndar síður átt við um frumurannsóknarstofu þar sem starfsfólki fækkaði og álag jókst.