Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vinnsla við Frozen hjálpaði við að leysa 60 ára ráðgátu

24.02.2021 - 07:30
Mynd með færslu
 Mynd: Frozen 2
Vinnsla við Disney-teiknimyndina Frozen nýttist svissneskum vísindamönnum við að leysa rúmlega sextíu ára gamla ráðgátu um örlög níu sovéskra göngugarpa sem létust í Úralfjöllum árið 1959. Þó bílar væru fjarri góðu gamni í fjallshlíðunum nýttust sömuleiðis áratugagamlir útreikningar sem General Motors framkvæmdu við hönnun á öryggisbeltum.

Þann 23. janúar árið 1959 lagði tíu manna hópur upp í göngu- og skíðaferð um Úralfjöllin. Fyrir hópnum fór hinn 23 ára Igor Dyatlov. Enda eru örlög hópsins, ferðin og staðurinn þar sem þau fundust síðar kenndur við hann. Ferðin átti fyrst og fremst að vera skemmtiferð, til að svala útivista-, skíða- og fjallgönguþorsta þeirra sem lögðu af stað. En einnig rannsóknarleiðangur og áskorun.

Níu úr hópnum voru nemendur í Tækniháskólanum í Yekateringburg, sá tíundi var íþróttakennari og fyrrum hermaður í síðari heimsstyrjöldinni. Hann hét Semyon Zolotaryov og var 38 ára, hin voru á aldrinum 20 til 24 ára. 

Sagan byrjar eins og sagan af tíu litlu strákunum, einn heltist fljótt úr lestinni. Hinn 21 árs gamli Yuri Yudin sneri aftur til byggða vegna veikinda. Ólíkt gömlu sögunni um litlu drengina tíu heltust hin níu ekki smám saman úr lestinni heldur öll á einu bretti. 

Vitað er að níumenningarnir, sjö karlmenn og tvær konur, slógu upp stóru tjaldi í hlíðum fjallsins Kholat Syakhl þann 1. febrúar 1959, rúmri viku eftir að þau lögðu af stað. Það er kaldhæðni örlaganna að þýðing á heiti fjallsins Kholat Syakhl er Dauðafjallið. Og fleiri örnefni hefðu mögulega átt að virka fráhrindandi fyrir göngufólkið, áfangastaður þeirra var fjallið Gora Otorten. Þýðing á því heiti gæti útlagst Farið ekki þangað. Ljóst var að ferðin yrði strembin, kuldinn gæti farið niður í allt að 30 gráður. 

Hér má lesa umfjöllun BBC um ferðina. 

Samkvæmt dagbókum ferðalanganna og ljósmyndum sem síðar fundust má slá því föstu að 1. febrúar slógu þau upp tjaldinu sínu í hlíðum Dauðafjallsins. Það er enginn til frásagnar um hvað gerðist eftir það. 

Í ferðaáætlunum Dyatlovs gerði hann ráð fyrir að senda skeyti í kringum 12. febrúar frá bænum Vizhay til að láta vita að leiðangrinum væri lokið. Þegar hópurinn hafði ekki skilað sér til byggða á tilsettum tíma var farið að grennslast fyrir um þau. Eða reyndar ekki fyrr en nokkrum dögum síðar. Dyatlov hafði sagt að ferðin gæti vel tekið aðeins lengri tíma en áætlað var svo það var ekki fyrr en í kringum 20. febrúar sem ákveðið var að fara að leita að þeim. Ferðin átti að taka 14 til 15 daga, en samkvæmt dagbókarfærslunum lauk ferðinni rétt rúmri viku eftir að hún hófst. Það var ekki fyrr en 26. febrúar sem leitarflokkar fundu ummerki um hópinn.

Óhugguleg aðkoma

Hún var ekki fögur sýnin sem blasti við leiðangursfólkinu sem kom fyrst á vettvang í Dyatlov-skarði. Tjaldið var á sínum stað en það var ónýtt, ljóst var að hópurinn hafði, einhverra hluta vegna, skorið gat á það, skorið sér leið út úr tjaldinu. Þau virtust hafa lagt á flótta undan einhverju og verið óviðbúin því sem þarna gerðist. Þau voru öll illa klædd, í frostinu og snjónum. Fótspor sem fundust í snjónum gáfu til kynna að þau hefðu annaðhvort verið á sokkaleistunum eða einfaldlega berfætt. 

Fótsporin komu að góðum notum síðar, við rannsókn málsins. Hægt var að bera kennsl á sporin og útiloka þar með að einhver annar en níumenningarnir hefði gengið um svæðið. 

Þau fundust reyndar ekki öll strax, þegar snjóa tók að leysa fundust lík þeirra allra eitt af öðru. Þau sem ekki hafa áhuga á að heyra lýsingar á því hvernig lík þeirra voru útleikin eru hvött til að lesa ekki mikið lengra. 

Fyrstu tvö líkin fundust undir tré, þau voru bæði berfætt og eingöngu klædd nærfötum. Greinarnar neðst á trénu voru brotnar, eins og einhver hefði reynt að klifra upp tréð. Næstu þrjú líkin fundust grafin í fönn, nær tjaldinu. Það var eins og þau hefðu reynt að komast til baka í tjaldið. Hin fjögur fundust síðar, og lengra frá, neðar í fjallshlíðinni. Þau voru öll með áverka, einn var með brotna höfuðkúpu, aðrir með brotin rifbein, í tvö vantaði augun, í eina vantaði tunguna. Lík þeirra lágu á víð og dreif um svæðið.

Aðkoman minnti meira á fjöldamorð heldur en slys, hvað hafði eiginlega gengið þarna á?

Rannsakendur héldu spilunum þétt að sér

Yfirvöld í Sovétríkjunum hófu strax rannsókn á örlögum göngugarpanna. Það torveldaði rannsóknina hvað áverkar fólksins voru ólíkir. Meðal þess sem kannað var var hvort þetta gæti verið grimmileg aftaka. Veiðimanna- og hirðingjahópur sem hafðist við í nágrenninu, kallað Mansi-fólkið, lá undir grun um tíma. Fjöldi þeirra hafði tekið þátt í leitinni að hópnum en það aftraði rannsakendum ekki í að handtaka fjölda þeirra og yfirheyra, marga vikum saman. Ekkert benti þó til þess að Mansi-fólkið hefði nokkuð með málið að gera. 

Lev nokkur Ivanov stýrði rannsókninni framan af. Ekki varð það til að minnka dulúðina kringum ferðina þegar hann greindi frá því í viðtali í kringum 1990 að stjórnvöld í Sovétríkjunum hefðu lagt hart að honum að loka málinu sem fyrst. Sérstaklega eftir að tíðar ábendingar bárust um óskilgreinda ljósblossa á himni hringum Dyatlov Pass í febrúar og mars árið 1959.  Það blés byr í kenningar um mögulega aðkomu hersins. Voru göngugarparnir fórnarlömb vopnatilrauna sovéska hersins?

Rannsakendur héldu spilunum þó þétt að sér og niðurstaðan var að óútskýrð náttúruöfl hefðu orðið níumenningunum að aldurtila, sex þeirra hefðu látist úr ofkælingu, þrjú þeirra hefðu orðið fyrir andlegu áfalli sem kostaði þau lífið. Þó sovéskir rannsakendur hefðu kveðið upp þennan dóm voru óhugguleg og undarleg örlög hinna níu enn mörgum hugleikin.

Alls kyns mis trúlegar kenningar litið dagsins ljós um það hvað kom fyrir á fjallinu. Snjómaðurinn ógurlegi og geimverur eru meðal sökudólga sem hafa verið viðraðir af fólki sem eðli málsins samkvæmt vildi fá að vita hvað varð til þess að þau sneru aldrei aftur heim. 

Dyatlov-ráðgátan var sögð rússneska útgáfan af sögusögnum tengdum Svæði 51 í Bandaríkjunum - herstöðinni í Nevada sem einhver trúa að hafi verið lendingarstaður geimvera. 

Ofkæling, árásir rándýra, snjóstormur, leynilegar heræfingar, geðshræring vegna hátíðnihljóða. Hann er nokkuð langur listinn yfir kenningar sem viðraðar hafa verið í gegnum tíðina um hvað orsakaði sviplegt andlát þeirra níu sem létust á fjallinu í byrjun febrúar árið 1959. 
 

Fallvindar og snjóflóð

Vísindamenn sem lögðust yfir málið 2009 sögðu líklegt að fallvindar hefðu orsakað dauða fólksins. Fallvindur er eins konar staðbundinn vindur vegna uppstreymis í fjallendi. 

Já kenningarnar voru ófáar og Rússar hófu aðra opinbera rannsókn á málinu árið 2019. Niðurstöðurnar voru birtar ári síðar. Hún var sú að snjóflóð hefði fallið þessa örlagaríku nótt og neytt ferðalangana til að flýja í ofboði út út tjaldi sínu þar sem þau hefðu ofkælst. 

Ekki voru öll tilbúin að kaupa þá útskýringu hráa, engin snjóflóðahætta var á þessum slóðum á þessum tíma, og lítil sem engin ofankoma var heldur dagana á undan sem hefði getað aukið líkur á snjóflóðum. Lítil sem engin ummerki eftir snjóflóð voru sömuleiðis á staðnum. 

Og þá kynnum við til sögunnar Svisslendinginn Johan Gaume, yfirmann Snow Avalanche Simulation Laboratory í Sviss, sem gæti útlagst sem einhvers konar ofanflóðastofnun þar í landi.  Hann er einn þeirra sem ekki var tilbúinn að kvitta alveg upp á þessa, að honum fannst, einföldu skýringu rússnesku rannsakendanna. Eða vildi í það minnsta rannsaka málið enn frekar. Hann fékk liðsauka landa síns, Alexanders Puzrin, sem setti sömuleiðis spurningarmerki við að stórt snjóflóð hefði orðið hópnum að aldurtila. Tímasetningar veðurmælinga pössuðu einfaldlega ekki inn í atburðarásina að hans mati. 

Niðurstöður rannsókna þeirra félaga má lesa hér.

Frost, kuldi og snjór eru auðvitað líklegri skýringar á dauða fólksins á fjallinu en árásir geimvera eða snjómannsins ógurlega. Gaume taldi lausnina felast í snjónum og hélt á heldur óhefðbundnar slóðir í leit að sannleikanum, nánar tiltekið í vopnabúr Disney.

Við áhorf á teiknimyndina Frozen var systrakærleikur Önnu og Elsu Johan Gaume ekki eftirminnilegastur. Né heldur hvað snjókallinn Ólafur er sniðugur.  Johan Gaume mundi eftir að hafa heillast að því hversu raunverulegur snjórinn var í teiknimyndinni vinsælu. Sem kunnugt er gerist Frozen í hinum fabrikkeraða Arendeil sem ísdrottningin Elsa hneppir óvart í klakabönd. Þar er því frost og snjór, þurr snjór, blautur snjór og svo framvegis. 

Snjór er víst ekki bara snjór og þau hjá Disney drógu ekki bara fram hvíta tússliti til að búa til sem raunverulegastar aðstæður í kuldabælinu Arendeil. Gaume leitaði á náðir Disney til að fá aðgang að algóryþmanum sem notaður var við að reikna út og framkalla snjó í öllum formum í Frozen. 

Og algóryþminn gat reiknað út, að ólíkt því sem áður var talið að aðstæður í fjallinu hefðu getað framkallað snjóflóð. Og það þó svo að snjóflóðahættan hafi ekki verið augljós þegar göngufólkið sló upp tjaldbúðum sínum þann 1. febrúar árið 1959. Vant fjallgöngufólk hefði ekki tjaldað í fjallshlíð undir snjóhengjum en skjótt skipast veður í lofti. Það var afar vindasamt þessa nótt, og snjórinn laus í sér. Hann hafi því auðveldlega getað skafið í fjallshlíðinni og orsakað þar með þurrt flekahlaup, sem er ein tegund snjóflóða. Þeir útreikningar geta sömuleiðis skýrt af hverju flekaflóðið hafði fallið síðar en rannsakendur héldu áður. Það tók smá tíma fyrir skaflinn að myndast í snjófjúkinu. Snjóflóðið hafi hreint ekki verið stórt, og því ekki skrýtið að lítil ummerki hafi verið um það þegar leitarflokkurinn fann ferðalangana rúmum þremur vikum eftir að þau létust. 

Rannsóknir á bílbeltum gögnuðust einnig

En gat lítið flekaflóð orsakað jafn alvarlega líkamlega áverka og fundust á níumenningunum?

Það vildu svissnesku vísindamennirnir sömuleiðis vita og þeir leituðu á náðir fleiri stórfyrirtækja en Disney við rannsóknir sínar. Rannsóknir á snjó og snjóflóðum er eitt. Rannsóknir á áverkum fólksins annað. Og þá brugðu þeir á það ráð að leita í reynslubanka bílaframleiðandans General Motors. Af hverju í ósköpunum kann einhver að spyrja. En það er vegna þess að á áttunda áratugnum lögðust General Motors í ítarlegar tilraunir til að auka öryggi í bílum sínum. Þá voru þau að hanna öryggisbelti í bíla. Þau notuðu lík Bandaríkjamanna sem höfðu fyrir andlátið gefið leyfi fyrir slíkum tilraunum, tilraunum sem áttu að skoða hversu mikinn kraft þyrfti til að valda fólki líkamlegum skaða við akstur og árekstur. Niðurstöður þeirrar tilraunar voru keyrðar saman við útreikningana af kraftinum í snjóflóðinu, sem fenginn var með Frozen algóryþmanum, muniði. 

Og niðurstaðan, að snjóflóðið eða flekaflóðið, þó litið hafi verið, hefði sannarlega geta valdið svo alvarlegum líkamlegum skaða. Fallþungi flekaflóðsins hafi getað orsakað meiðslin.

Áverkarnir hafi þó líklega ekki dregið þau samstundis til dauða. Þau sem betur hafi verið á sig komin hafi reynt að koma vinum sínum út út tjaldinu, skorið á það gat, og reynt eftir fremsta megni að koma þeim í öruggt skjól. Í fjallshlíðum Dauðafjallsins var því þó ekki fyrir að fara. Áverkar eftir snjóflóðið hafi getað dregið einhver þeirra til dauða, flest þeirra hafi þó látist úr ofkælingu. Það að augu og tungu hafi vantað í einhver þeirra gæti átt sér náttúrulegar útskýringar, rándýrum verið um að kenna. 

Ráðgátan leysist aldrei að fullu

Gaume sagði að kannski væru þessar niðurstöður of venjulegar fyrir flesta til að sætta sig við. Örlög níumenninganna hafi verið sveipuð slíkri dulúð í áratugi að vísindalegir útreikningar gæti þótt helst til leiðinleg útskýring. Eftir stæðu þó alltaf svipleg örlög ungs fólks sem lagði vel undirbúið upp í ævintýraför sem þau ætluðu sér öll að snúa aftur úr. 

Þessar nýju kenningar eru ekki óyggjandi, en þær eru sannarlega líklegasta útskýringin hingað til. Það verður þó aldrei vitað með fullri vissu nákvæmlega hvað gerðist þessa nótt á Dauðafjallinu fyrir 62 árum síðan annað en að þar létu níu ungar manneskjur lífið. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV