Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Um listina að taka afstöðu

Mynd: Tattarrattat / RÚV

Um listina að taka afstöðu

24.02.2021 - 19:50

Höfundar

Heimildarmyndin A Song Called Hate verður frumsýnd á föstudag. Í henni er fylgst með meðlimum Hatara í aðdragandanum að umdeildri þátttöku sveitarinnar í Eurovison-keppninni í Ísrael 2019.

Anna Hildur Hildibrandsdóttir er leikstjóri A Song Called Hate. Hún fékk að fylgjast með sveitinni að tjaldabaki vikurnar frá því að hún sigraði í Söngvakeppninni og fram að sjálfu úrslitakvöldinu í Eurovision.

„Myndin er í rauninni um listina að taka afstöðu. Við sjáum það sem gerðist á bakvið tjöldin og álagið sem var á þeim við að gera hlutina öðruvísi en það reiknaði með eða vildi.“

Anna Hildur varð eins og margir hissa þegar Hatara sendi lag í Söngvakeppnina en hugsaði strax með sér að það gæti orðið spennandi efniviður í heimildarmynd ef sveitin ynni.

„Ég man að ég var búin að panta tíma hjá Skarphéðni Guðmundssyni [dagskrárstjóra RÚV] og var tilbúin með „pitch“ klukkan 9 á mánudagsmorgni eftir úrslitakvöldið í mars 2019.“

Öll spjót stóðu á Hatara í kringum keppnina. Annars vegar voru þau gagnrýnd fyrir að nota Eurovision vettvang fyrir pólitískan boðskap en en á hinn bóginn fyrir að taka ð taka þátt í henni yfir höfuð þar sem hún var haldin í Ísrael.

Mynd með færslu
 Mynd: Tattarrattat - RÚV

„Það voru náttúrulega skýr skilaboð frá BDS-samtökunum, sem sóttu hart að öllum ríkissjónvarpsstöðvum að sniðganga keppnina í Tel Aviv. Margir í þessum hópi eru stuðningsmenn sniðgöngusamtakanna og það kom því mörgum verulega á óvart að þau ákvæðu að taka þátt. En þegar út var komið, að þau skyldu vera gagnrýninn á stefnu Ísraelsstjórnar og vinna með palestínskum listamönnum, já þá stóðu öll spjót á þeim. Það var mikil pressa og mikið álag. Hatara-fólkið fékk hótanir og óþægileg skilaboð sem gerði þeirra stöðu viðsjárverða.“

Þetta er fyrsta myndin sem Anna Hildur leikstýrir. Hún var um árabil framkvæmdastjóri Útón, sem aðstoðar íslenskt tónlistarfólk að hasla sér völl erlendis, áður en hún tók við verkefninu Nordic Music Export. Þegar því lauk árið 2017 ákvað hún að söðla um og snúa sér að kvikmyndagerð.

„Ég hafði verið að hugsa og þróa verkefni sem ég hafði sýnt vinum mínum, Ian Forsythe og Jane Pollard. Þau eru kvikmyndagerðarfólk, leikstýrðu 20.000 Days on Earth með Nick Cave. Það er hugmynd sem við erum enn að vinna að. En þegar þetta kom í fangið á mér hugsaði ég með mér að þetta væri verkefnið sem ég ætti að vera í. Ég fékk þau með mér í þetta og þau eru yfirframleiðendur á myndinni. Ég hef starfað í fjölmiðlum allt mitt líf og þetta er bara byrjunin á nýju ævintýri.“

Rætt var við Önnu Hildi í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég var búin að búa mig undir óvissuna“

Tónlist

Ætlar að pína barnabörnin til að erfa húsgögnin

Popptónlist

Daði flytur Hatrið mun sigra

Tónlist

Með væga áfallastreituröskun eftir Ísraelsför Hatara