Tugir látnir í fangelsisóeirðum í Ekvador

epa09032630 View of the El Turi jail, in the city of Cuenca, Ecuador, 23 February 2021. More than 50 inmates died in a series of riots that occurred in three prisons in various cities in Ecuador, the National Police confirmed.  EPA-EFE/Robert Puglla
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Minnst 62 fangar eru látnir eftir að óeirðir brutust út samtímis í þremur fangelsum í Ekvador í dag. Yfirvöld segja átök á milli gengja vera kveikjuna að uppþotunum. Að sögn AFP fréttastofunnar létu 33 fangar lífið í Cuenca, átta í Latacunga og 21 í Guayaquil.

Innanríkisráðherrann Patricio Pazmino greindi frá því á Twitter að komið hafi verið upp aðgerðarmiðstöð til þess að bregðast við því sem hann kallaði samhæfðar ofbeldisaðgerðir glæpasamtaka í fangelsum landsins.

Lenin Moreno, forseti Ekvadors, sagði lögregluna vinna að því að ná tökum á ástandinu.

Lögreglan hefur enn ekki gefið það út hvort óeirðunum sé lokið.
Edmundo Moncayo, yfirmaður fangelsismála í Ekvador, segir nokkra lögreglumenn slasaða eftir óeirðirnar. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV