Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þriðjungur innbúa ekki tryggður fyrir jarðskjálftatjóni

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Um þriðjungur innbúa landsins er ekki brunatryggð, sem þýðir sömuleiðis að innbúið er ekki tryggt gegn tjóni vegna náttúruhamfara. Sem þýðir að jarðskjálftatjón mundu ekki heldur verða bætt.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir er framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands. 

„Okkur hefur gengið mjög illa að koma þessum upplýsingum til skila. Og ég held að það sé mjög mikilvægt að fólk hugi að því hvort innbús- eða heimilistrygging sé á innbúi og lausafé, vegna þess að brunatryggingin fylgir því og iðgjöld til náttúruhamfaratrygginga eru greidd samhliða brunatryggingu,” segir Hulda. „Miðað við þær tölur sem við höfum þá er það okkar mat að það sé um 30 til 35 prósent af innbúum sem eru ekki tryggð gegn náttúruhamförum vegna þess að þau eru ekki með brunatryggingu.”

Hún undirstrikar að þetta hafi verið raunin undanfarin ár, nú nýverið á Seyðisfirði, þegar fólk ætlaði að sækja sér bætur vegna tjóns í skriðunum en sátu uppi með sárt ennið þegar í ljós kom að innbúið var ekki brunatryggt.