Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þetta er vitað um skjálftahrinuna í morgun

Mynd með færslu
 Mynd: Grafík/Birgir Þór - RÚV
Öflug skjálftahrina hófst á Reykjanesskaga í morgun þegar tveir skjálftar um og yfir 5 að stærð mældust um tíu leytið í morgun. Hátt í fjörutíu skjálftar hafa mælst yfir 3 stærð og fleiri en tíu yfir 4 að stærð. Engar tilkynningar hafa borist um tjón á mannvirkjum eða meiðsl á fólki en eitthvað er um að munir í heimahúsum hafi skemmst.

Stærri skjálftinn varð um 3,3 kílómetra suðsuðvestur af Keili klukkan 10:05. Hann var 5,7 að stærð. Veðurstofan segir á vef sínum að auknar líkur á grjóthruni og skriðuföllum á svæðinu á meðan á hrinunni stendur.  

Skjálftahrinan stendur enn yfir og snarpir eftirskjálftar hafa fundist á öllu höfuðborgarsvæðinu.  Skjálftavirknin er bundin við Reykjanesskaga. 

Kristín Jónsdóttir,  hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni, sagði í fréttum Útvarps klukkan 11 að skjálftavirknin yrði að teljast óvenjuleg. Margir stórir skjálftar hefðu orðið á skömmum tíma. „ Ég held að við höfum aldrei séð annað eins á Reykjanesskaganum. Þetta eru líklega um tíu skjálftar sem eru stærri en fjórir og nokkrir þeirra sem eru stærri en fimm.“

Það sem gerir þessa skjálftahrinu óvenjulega er að svæðin eru tvö: annars vegar austan í Fagradalsfjallinu og hins vegar á svipuðum slóðum og skjálftinn varð 20. október, í Núpshlíðarhálsinum.

Í töflu á vef Veðurstofunnar kemur fram að 41 skjálfti hafi verið stærri en þrír og fleiri en tíu hafa verið stærri en 4.