Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Svipar til fyrri hrina sem lauk með 6,0 skjálfta

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Náttúruvársérfræðingar óttast að skjálfti að stærðinni sex eða meira geti orðið í Brennisteinsfjöllum eða Bláfjöllum og þá talsvert nær höfuðborgarsvæðinu en stærsti skjálftinn í dag. Skjálftahrinan sem staðið hefur yfir í rúmt ár minnir á fyrri hrinur en þeim fylgdu skjálftar yfir sex að stærð.

Jarðskjálftahrinan í dag hefur teygt sig yfir um tuttugu kílómetra kafla. En lítil virkni hefur verið austan Kleifarvatns við Brennisteinsfjöll og Bláfjöll. Tvennt getur skýrt það. Annað hvort hefur ekki byggst þar upp spenna eða að jarðskorpan sé í læstri stöðu.

„Og það geti hreinlega ekki brotnað þar nema bara með mjög kröftugum skjálfta og það er þessi sviðsmynd sem við getum ekki útilokað. Að það verði skjálfti upp á 6 eða 6,5 á því svæði. Það er bæði meira en það sem við fundum í dag og svo er það nær höfuðborgarsvæðinu. Bæði 1968 þegar Brennisteinsfjallaskjálftinn varð og líka 1929, báðir þessir skjálftar komu um ári eftir að hrinuvirkni hefst. Nú er í rauninni búin að vera virkni í heilt ár og þá er spurning: er kerfið að fara að hafa sér eins?,“ segir Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í viðtali í Kastljósi.