Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ráðherra segir leghálsskimanir ganga betur í nýju kerfi

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Heilbrigðisráðherra vill fullvissa konur sem beðið hafa mánuðum saman eftir niðurstöðu úr leghálsskimun um að þjónustan verði betri í nýju kerfi. Hún segir innviði ekki til staðar til að greina sýni hér. 

Þegar heilsugæslan tók við leghálsskimun af Krabbameinsfélaginu um áramótin var ekki búið að semja við dönsku rannsóknastofuna sem nú greinir sýni frá Íslandi. Um 2000 sýni sem tekin voru á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í nóvember og desember lentu því ofan í kassa og dæmi um að konur hafi beðið í fjóra mánuði eftir niðurstöðu. Í fréttum sjónvarps í gær var rætt við áhyggjufullar konur sem segja stöðuna óboðlega.

Sjá einnig: „Það verður að halda betur utan um okkur“

Hvernig vill Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra svara þeim? „Ég vil fullvissa þær um það að þetta utanumhald er á leið til mjög góðs vegar, það er að segja, við erum að fara að sjá kerfi sem verður öruggt, hraðvirkt, nálægt fólki og verður ódýrara. Það er auðvitað slæmt ef áhyggjur hafa vaknað við þessa breytingu en við höfum öryggi og heilsu kvenna að leiðarljósi í hverju skrefi.“

Bréfin komin í póst

Í gærkvöldi tilkynnti forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu að heilsugæslan hefði póstlagt 2300 svarbréf, konurnar geti því átt von á svörum á næstu dögum. En hvers vegna var ekki búið að semja um greiningu sýna þegar heilsugæslan tók við? „Ég held að ekkert okkar hafi gert ráð fyrir því að Covid-19 yrði stærsta verkefni sögunnar. Það hefur að hluta til komið niður á þessu verkefni eins og ýmsum öðrum.“ 

Sjá einnig: Hálfur mánuður þar til tafirnar hafa verið unnar upp

Deilir ekki áhyggjum lækna

Svandís deilir ekki áhyggjum lækna sem gagnrýnt hafa þá ákvörðun að greina sýnin ytra og segir það hafa verið mat heilsugæslunnar og heilbrigðisráðuneytisins að það væru ekki innviðir hér til að sinna þessum greiningum. „Það var mat míns fólks á þessum tímapunkti að svo væri ekki.“
 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV