Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Máli gegn Mönnum í vinnu og Eldum rétt vísað frá

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag frá dómi máli sem fjórir Rúmenar höfðuðu gegn Eldum rétt og aðstandendum starfsmannaleigunnar Menn í vinnu. Fólkið kvaðst hafa verð hýrudregið og sætt vanvirðandi meðferð og þvingunar- eða nauðungarvinnu. Dómarinn sagði að þar sem gjaldþrotaskiptum á Mönnum í vinnu væri lokið væri málinu gegn því sjálfkrafa vísað frá dómi. Og þar sem málinu gegn starfsmannaleigunni gjaldþrota var vísað frá dómi var málinu gegn Eldum rétt líka vísað frá.

Málareksturinn hófst síðla árs 2019. Starfsfólkið kom til landsins á vegum MIV ehf, betur þekkt sem Menn í vinnu, og skrifaði undir samning við starfsmannaleiguna. Hann fól meðal annars í sér ákvæði um að ýmis kostnaður yrði dreginn af launum, svo sem vegna ferðalaga til og frá landinu, húsnæði og líkamsrækt. Einnig sögðust þau hafa búið í óviðunandi húsnæði sem starfsmannaleigan rukkaði þau fyrir. Meðan á veru fólksins hér stóð leigði fyrirtækið Eldum rétt starfsfólkið til starfa hjá sér frá MIV.

MIV ehf. varð gjaldþrota 2019 og var tekið til endanlegra gjaldþrotaskipta í fyrra. Dómari sagði að eftir gjaldþrotaskipti væri fyrirtækið ekki lengur til og því ekki hægt að reka mál gegn því. Þar með væri málinu gegn MIV vísað frá. Af því leiddi að vísa yrði frá málinu gegn Eldum rétt. Það er vegna þess að aðeins megi stefna fyrirtæki sem leigir starfsfólk af starfsmannaleigu ef starfsmannaleigunni er líka stefnt. Það er ómögulegt eftir gjaldþrotaskipti starfsmannaleigunnar. 

Ekki þarf að meta hvort starfsmannaleigunni hafi verið heimilt að skuldajafna hina ýmsu liði við launagreiðslur þar sem búið er að vísa málinu gegn MIV frá, segir í dóminum. Dómari segir að aðrir en starfsmannaleigan geti hvorkið borið ábyrgð á frádrættinum né verði svo á litið að í frádrættinum hafi falist ólögmæt meingerð.

Málið snýr meðal annars að gistingu sem starfsmannaleigan sá fólkinu fyrir. Að lokum hafði stéttarfélagið Efling samband við ráðuneyti og mansalsteymi var kallað út og sveitarfélög virkjuð til að útvega fólkinu húsnæði. Efling studdi síðan málaferli starfsfólksins gegn MIV, Eldum rétt og aðstandendum MIV. Dómarinn segir að hvorki hafi verið óskað eftir úttekt á húsnæðinu né lögreglurannsókn þótt gild ástæða væri til þess í ljósi ásakna fólksins í garð fyrirtækjanna og aðstandenda starfsmannaleigunnar. Þá hafi myndir af húsnæðinu ekki verið í samræmi við lýsingar fólksins á aðstöðunni.