Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ísland sendir uppfærð loftslagsmarkmið til SÞ

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Íslensk stjórnvöld hafa sent uppfærð markmið ríkisins í loftslagsmálum til skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Markmiðin eru sameiginleg með Evrópusambandinu og Noregi, og fela í sér samdrátt í losun, um 55% eða meira til ársins 2030, miðað við árið 1990. Hlutur Íslands í markmiðinu er 29% samdráttur í losun til ársins 2030 miðað við árið 2005, varðandi losun utan viðskiptakerfis ESB.

Á vef stjórnarráðsins segir að jafnframt hafi verið ákveðið í desember að efla aðgerðir í landnotkun. Þær auðveldi Íslandi að ná settu markmiði um kolefnishlutleysi fyrir 2040 og að auka framlög til loftslagstengdra þróunarsamvinnuverkefna. Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum segir að stefnt sé að meiri samdrætti en sem nemur 29% lágmarkinu, eða að minnsta kosti 40%.

Tilkynning ríkisins til skrifstofu Loftslagssamningsin er í samræmi við Parísarsamkomulagið frá árinu 2015. Hún kemur þó nokkuð seint, en í janúar var Ísland eitt örfárra Evrópuríkja sem ekki hafði skilað uppfærðum landsmarkmiðum í loftslagsmálum til Sameinuðu þjóðanna. Parísarsamkomulagið kveður á um að ríki skili af sér markmiðum á fimm ára fresti, og áttu ríkin að gera það í fyrsta sinn árið 2020. Markmið samkomulagsins er að halda hlýnun jarðar innan við tvær gráður, og helst innan við eina og hálfa gráðu, til að stemma stigu við alvarlegum afleiðingum loftslagsbreytinga.

Ísland vann að sameiginlegu markmiði Evrópusambandsríkja með Noregi. Öll Evrópusambandsríkin sendu Sameinuðu þjóðunum uppfærð landsmarkmið seint á síðasta ári og Noregur gerði það í febrúar í fyrra.

Fréttin var uppfærð 25. febrúar.