Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Innan við fimm tilkynningar um meiðsl eftir skjálfta

24.02.2021 - 13:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Almannavarnir hafa fengið innan við fimm tilkynningar um meiðsl eftir skjálftana í morgun, segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn á almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, og bætir við að meiðslin séu minniháttar.

Hann segir að algengustu meiðsl í jarðskjálftum verði þegar hlutir falli á fólk, og að meiðslin í morgun séu einmitt þess eðlis. Hann segir að nú sé í skoðun að lýsa yfir hættustigi vegna skjálftavirkni og minnir fólk á að gæta þess að heimili og vinnustaðir séu öruggir, sérstaklega að þungir hlutir séu vel festir við veggi. 

Þá hafa almannavarnir varað við því að fólk sé á ferðinni í fjallshlíðum vegna grjóthruns. Víðir segir að skíðasvæðin meti sjálf snjóflóðahættu og séu hæfust til þess.