
Hættustigi lýst yfir á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi
Skjálftavirknin er bundin við Reykjanesskaga. Aðrar staðsetningar á skjálftum eru óáreiðanlegar. Engin merki eru um gosóróa á svæðinu og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgist vel með í samvinnu við lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og Veðurstofu Íslands.
Lögreglan á Suðurnesjum fer núna um svæðið til að kanna áhrif skjálftans. Þá hefur áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar flogið yfir Reykjanes til að kanna aðstæður. Grjót hefur hrunið úr fjöllum á Reykjanesi og hvítir gufustrókar á jarðhitasvæðum hafa sést á svæðinu.
Veðurstofa Íslands hefur hækkað litakóða fyrir flug á Reykjanesi yfir á gult og er það samkvæmt verklagsreglum.
Í tilkynningu frá almannavörnum segir að hættustig sé sett á til að samhæfa aðgerðir og verklag ýmissa verklagsaðila og stofnana og hefur ekki áhrif á almenning. Hættustig er sett á ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða.
Hér má sjá upplýsingar almannavarna um viðbrögð í jarðskjálfta.