Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fólk fór út og blóm hrundu úr gluggum við skjálftana

Mynd: Veðurstofan / Veðurstofan
Það hefur verið ansi mikill hristingur í Krýsuvíkurskóla frá því fyrstu stóru skjálftarnir riðu yfir fyrir um klukkustund síðan segir Sigurður Hólmar Karlsson forstöðumaður. Fólk fór út úr húsi þegar fyrstu tveir skjálftarnir riðu yfir en er komið aftur inn. Blómapottar hrundu úr gluggum en engum varð meint af.

„Það byrjaði þannig að það komu tveir mjög harðir skjálftar með stuttu millibili sem við fundum mjög fyrir og fólk út úr húsinu. Síðan eru búnir að vera eftirskjálftar,“ segir Sigurður. „Við erum orðin nokkuð vön þessu þrátt fyrir að skjálftarnir hafi verið minni og húsið er vel undirbúið, allt er vel fest. Það sem við sjáum er að það hefur hrunið úr gluggum, blóm og eitthvað svona en þetta er búinn að vera ansi mikill hristingur frá því fyrstu skjálftarnir komu.“

„Fólki var auðvitað brugðið. Náttúruöflin eru rosalega sterk og maður upplifir hvað maður er lítill. Það var ótti í vistmönnum, sem er eðlilegur. Nú er allt komið í ró en það eru eftirskjálftar. Það eru allir hér rólegir og viðbúnir því ef þetta heldur áfram,“ segir Sigurður.

Allir fóru aftur inn í hús fljótlega eftir að fyrstu skjálftarnir riðu yfir. Fólk var byrjað að taka til í húsinu meðan hrinan hélt áfram. 

Sigurður segist ekki hafa unnið lengi í Krýsuvíkurskóla en fann skjálftann í október. „Þetta er harðari hrina en var þá. Þá kom einn stór skjálfti og litlir eftirskjálftar. Þetta er það mesta sem ég hef upplifað.“

„Andrúmsloftið er bara gott,“ segir Sigurður. „Hér höldum við alveg ró okkar. Það er mikil samstaða í húsinu. Við skiljum þá sem eru hræddir við náttúruöflin og höldum þá sérstaklega utan um þá og tölum við þá. Andrúmsloftið er gott. Við erum náttúrulega öll hérna sem erum ýmsu vön í lífinu.“

Uppfært 11:39.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV