Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fagnar réttarhöldum yfir sýrlenskum leyniþjónustumönnum

24.02.2021 - 22:15
Mynd: EPA-EFE / AP POOL
Utanríkisráðherra Þýskalands fagnar réttarhöldum yfir fulltrúum sýrlenskra stjórnvalda sem eru þau fyrstu síðan stríðið braust út fyrir nærri tíu árum. Tveir voru ákærðir í maí í fyrra og annar þeirra var í dag dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi

„Í grunninn fagna ég þessum réttarhöldum þar sem þau gera það öllum ljóst að hverjir þeir sem fremja alþjóðlega glæpi mega vera vissir um að þeir eru hvergi óhulltir,“ sagði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, á blaðamannafundi í dag.  Réttað er yfir mönnunum á grundvelli allsherjarlögsögu sem var innleidd í Þýskalandi í málum er varða glæpi gegn mannkyni, stríðsglæpi og þjóðarmorð.

Sýrlensk stjórnvöld hafa margoft verið sökuð um stríðsglæpi og fjöldamargar skýrslur hafa verið ritaðar um illa meðferð og pyntingar á fólki í sýrlenskum fangelsum. Samt sem áður eru réttarhöldin í Koblenz eru þau fyrstu yfir fulltrúm sýrlenskra stjórnvalda frá því stríðið hófst í mars 2011. 

Störfuðu innan leyniþjónustunnar

Tveir voru ákærðir, Eyad al-Gharib sem í dag hlaut dóm og Anwar Raslan. Báðir störfuðu þeir innan sýrlensku leyniþjónustunnar og voru ákærðir fyrir þátt sinn í pyntingum á almennum borgurum sem tóku þátt í mótmælum gegn Bashar al-Assad forseta og ríkisstjórn hans. Síðar flúðu þeir báðir og sóttu um alþjóðlega vernd í Þýskalandi. Eyad var handtekinn 2019 eftir að fórnarlamb hans bar kennsl á hann. Hann var í dag dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir að safna saman og handtaka mótmælendur og flytja í hið alræmda al-Khatib fangelsi þar sem almennir borgarar voru pyntaðir markvisst og grimmilega. 

Anwar sem enn bíður dóms var hæstráðandi í fangelsinu en ekki er búist við að réttarhöldunum yfir honum verði lokið fyrr en í október. Málsóknin byggist að mestu leyti á vitnisburði fyrrverandi fanga sem segja frá hryllilegri dvöl sinni í fangelsinu. Vonast er til þess að réttahöldin verði vendipunktur í því að draga sýrlensk stjórnvöld til ábyrgðar. „Sakamálaréttarhöld á grundvelli alþjóðalaga eru því eina færa leiðin nú til að tryggja að refsað sé fyrir slíka glæpi. Réttarhöldin utan Sýrlands eru í huga mér ein vonarglætan og einnig skýr skilaboð fyrir fórnarlömbin,“ segir Maas.