Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ekkert sem bendir til þess að eldgos sé í aðsigi

Mynd: Skjáskot / RÚV
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, segir líklegast að það skjálftavirknin á Reykjanesskaga koðni niður á næstu dögum. Þó er ekki hægt að útiloka að enn stærri skjálftar eigi eftir að ríða yfir, allt að 6,5. Ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af eldgosum, samkvæmt mælingum.

„Það er ekkert sem bendir til þess að það sé eldgos í aðsigi. Við mældum innskotavirkni á síðasta ári en á þessu ári sjáum við engin greinileg merki um að kvika sé komin ofarlega,“ sagði Kristín í kvöldfréttum sjónvarps.

Líklegast er að jarðskálftavirknin minnki næstu daga og skjálftavirknin hætti, sagði Kristín. „Svo eru sviðsmyndir sem við getum ekki útilokað. Það er sviðsmyndin að það verði jarðskjálfti sem verði allt að 6,5 að stærð á þessu svæði sem hefur verið fjallað um við Bláfjöllin.“. Hitt sé þó líklegra, að skjálftavirknin gangi yfir.

„Bæði 1968 þegar Brennisteinsfjallaskjálftinn varð og 1929 var eins og skjálftarnir kæmu svona ári eftir að hrinuvirkni hefst. Nú er í rauninni búin að vera virkni í eitt ár,“ sagði Kristín í Kastljósi í kvöld. „Þá er spurning: Er kerfið að fara að haga sér eins? Erum við komin að þeim mörkum núna að við fáum annan svona skjálfta? Það er eitthvað sem við getum ekki sagt til um núna.“

Fréttin var uppfærð klukkan 20:08

Mynd: Skjáskot / RÚV