Vilja fangelsa Jacob Zuma fyrir óvirðingu

23.02.2021 - 03:27
epa06608201 (FILE) African National Congress (ANC) president, Jacob Zuma during the 54th ANC National Conference held at the NASREC Convention Centre, Johannesburg, South Africa, 18 December 2017 (reissued 16 March 2018). South African General Prosecutor
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sérstök rannsóknarnefnd í spillingarmáli gegn háttsettum stjórnmála- og embættismönnum í Suður Afríku hefur lagt fram formlega kröfu um að stjórnlagadómstóll landsins dæmi Jacob Zuma, fyrrverandi forseta, til tveggja ára fangelsisvistar fyrir óvirðingu. Sakarefnið er hundsun Zumas á fyrirmælum um að mæta fyrir nefndina, þrátt fyrir úrskurð hæstaréttar þar að lútandi, og svívirðileg ummæli um dómskerfi landsins.

Beiðnin var lögð fram eftir að Zuma lét ekki sjá sig á fundi rannsóknarnefndarinnar í liðinni viku, þar sem hann átti að svara spurningum um meinta spillingu á æðstu stöðum í forsetatíð hans. Jafnframt fer rannsóknarnefndin fram á að Zuma verði gert að greiða allan kostnað sem hlýst af málarekstrinum vegna þessarar kröfugerðar, sem er nýlunda í suður-afrískri réttarsögu, samkvæmt frétt BBC.

Vanvirðir og vantreystir rannsóknarnefnd sem hann kom sjálfur á fót

Í kröfunni segir að forsetinn fyrrverandi hafi ítrekað sýnt rannsóknarnefndinni saknæma óvirðingu, meðal annars með því að hundsa fyrirmæli um að mæta fyrir nefndina, skila ekki inn eiðsvörnum yfirlýsingum og vitnisburði þrátt fyrir fyrirmæli stjórnlagadómstólsins og með fjölmörgum opinberum og ærumeiðandi yfirlýsingum um stjórnlagadómstólinn og suður-afríska dómskerfið í heild sinni.

Zuma setti rannsóknarnefndina sjálfur á laggirnar í janúar 2018 og skipaði Raymond Zondo, varaforseta stjórnlagadómstólsins, formann hennar. Lögbundið hlutverk nefndarinnar er að rannsaka ásakanir um spillingu innan ríkisstjórnarinnar og helstu embætta og stofnana landsins.

Sú rannsókn leiddi til þess að Zuma neyddist til að segja af sér embætti áður en árið var á enda, vegna fjölmargra ásakana um spillingu hans sjálfs. Hann hefur síðan margoft neitað að mæta fyrir rannsóknarnefndina og sakar nefndarmenn um hlutdrægni, enda sé allur málatilbúnaðurinn á hendur honum af pólitískum rótum runninn.