„Við óttuðumst um líf okkar alla daga“

Mynd: RÚV / RÚV

„Við óttuðumst um líf okkar alla daga“

23.02.2021 - 12:40

Höfundar

„Maður hefur horft upp á börn deyja og bróðir minn var næstum drepinn líka,“ segir Jasmina Vajzovic Crnac um síðustu árin sem hún var búsett í Bosníu Hersgóvínu, áður en hún flutti til Íslands sextán ára gömul árið 1996. Þá hafði stríð geisað í heimalandinu í nokkur ár og sá tími einkenndist af stöðugum ótta.

Nokkuð áhyggjulaus æska Jasminu Vajzovic Crnac breyttist í martröð á nánast einni nóttu þegar stríð braust út og eftir það horfði hún reglulega upp á fullorðna og börn láta lífið í sprengingum. Hún lifði í stöðugum ótta árum saman en fékk tækifæri til að öðlast nýtt líf og öryggi á Íslandi. Það er tækifæri sem hún hefur heldur betur nýtt sér. Hún rifjar upp skelfilega atburði í æsku, lífið á Íslandi og fjallar um stöðu flóttafólks á Íslandi í Okkar á milli í kvöld.

Dauðinn var allt um lykjandi og hræðslan gífurleg síðustu ár hennar í Bosníu Hersegóvínu. Hún lærði að vera stöðugt á varðbergi því börn voru ekki óhult. „Maður hefur alveg horft upp á nágranna sína missa börnin sín þegar sprengjurnar komu,“ segir hún. „Maður hefur horft upp á börn deyja og bróðir minn var næstum drepinn líka. Á góðum degi voru frændurnir úti saman að leika sér og þá kom sprengja. Þarna munaði litlu.“

Á leið sinni í skólann vandist hún því að fara varlega því hætturnar leyndust víða. „Stundum komu sprengjurnar óvænt en oftast vissum við af þeim. Það heyrðust viðvörunarhljóð í bænum og maður fylgdist með fréttunum þegar það var rafmagn sem var sjaldan og lítið.“ Og þegar viðvörunarhljóðin bárust fór fjölskyldan í skjól sem var síður en svo notalegt. „Maður hélt sig í virki sem var steypt þar sem sprengjurnar náðu ekki og þar var myrkur og kalt. Þetta var veruleiki í langan tíma, að eyða tíma þar.“

Stór hluti æskunnar einkenndist af óöryggi og hræðslu. „Við óttuðumst um líf okkar alla daga, allar nætur, hverja mínútu og hverja klukkustund.“

Sigmar Guðmundsson ræðir við Jasminu Vajzovic Crnac í Okkar á milli kl. 20 í kvöld.

Tengdar fréttir

Mannlíf

„Mín æska var ekki eins og æska á að vera“

Mannlíf

„Hann væri búinn að hafa samband“