Vertar ósáttir við tveggja metra regluna

23.02.2021 - 15:18
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Eigendur veitingastaða og kráa segja að rýmkaðar samkomutakmarkanir og lengri opnunartími hafi takmörkuð áhrif á rekstur minni staða á meðan tveggja metra reglan er enn í gildi. Þeir vilja að gengið verði lengra í tilslökunum.

Fjöldatakmarkanir verða rýmkaðar úr 20 í 50 með nýrri sóttvarnareglugerð sem tekur gildi á morgun og veitingastaðir og krár fá að hafa opið til klukkan ellefu í stað tíu. Þar gildir þó áfram tveggja metra regla.

„Þetta er náttúrulega skref fram á við. Ég hefði viljað sjá eins meters reglu í stað tveggja metra reglu. Þetta nýtist ekki litlum stöðum, að koma fimmtíu manns inn á þessa staði þegar þú ert með tveggja metra regluna,“ segir Björn Árnason, eigandi Skúla Craft Bar.

Bragi Skaftason, einn eigenda veitingastaðarins Tíu sopa á Laugavegi, tekur undir með Birni. „Metersregla á íþróttakappleikjum og listsýningum en tveggja metra á veitingastöðum þar sem allir eru hvort sem er skyldaðir til að sitja. Ég sé ekki alveg muninn,“ segir Bragi.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV