Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Til greina kemur að slaka á landamærareglum í vor

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sóttvarnalæknir segir að eitt af því sem verið sé að skoða sé hvort hægt verði að slaka á ferðatakmörkunum við landamærin með vorinu. Þá yrði seinni skimun og sóttkví hætt, en áfram farið fram á neikvætt Covid próf og skimun við komuna til landsins.

Nýjar takmarkanir innanlands taka gildi á morgun með nokkrum tilslökunum. Í seinustu viku tóku gildi hertar reglur við landamærin. Farþegar þurfa að framvísa neikvæðu Covid prófi og fara í tvöfalda skimun með fimm daga sóttkví á milli.  Þórólfur Guðnason ræddi meðal annars þessar hertu aðgerðir við landamærin í Kastljósi í kvöld. 

„Það er búið að vera að tala um það, og menn eru að stefna að því 1. maí hvort að það verði hægt að taka upp það fyrirkomulag að krefja fólk um  neikvætt pcr próf og taka síðan til dæmis, það eru nokkrar útfærslur sem menn hafa verið að leggja upp með, að taka til dæmis próf þegar fólk kemur og sleppa því þá við frekari próf. Það yrði veruleg opnun á landamærunum til dæmis.“

Hann segir virkni bóluefna gegn suður afrísku og brasilísku afbrigði sé ekki fyllilega komin í ljós.

„Ég bara bendi á það að það eru mjög mörg afbrigði allstaðar í heiminum. Við erum hér á Íslandi búin að finna um 450 afbrigði af þessarri veiru. Við eigum örugglega eftir að finna fleiri. Á eitthvað eftir að koma okkur á óvart í þessu sem setur eitthvað úr skorðum? örugglega eitthvað. Þess vegna hef ég sagt. Við þurfum að búa okkur undir 3 sviðsmyndir. Við náum að bólusetja, þetta gengur allt vel og veiran deyr út eða þá að þetta tekur einhvern tíma og við fáum eitthvað smá bakslag hér og þar eða að það gerist eitthvað að bólusetningin virkar ekki og við fáum ný afbrigði. Við þurfum að vera viðbúin að eitthvað af þessu gerist, við þurfum bara að vera tilbúin,“ sagði Þórólfur.

Hægt er að horfa á Kastljós kvöldsins hér

 

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV