Þúsundir hafa týnt lífi vegna HM í fótbolta í Katar

epaselect epa08075017 Construction workers on top of the roof of Al Janoub stadium during a media tour in Doha, Qatar, 16 December 2019. Al Janoub stadium is the second among the eight stadiums for the FIFA World Cup 2022 in Qatar.  EPA-EFE/ALI HAIDER
 Mynd: EPA

Þúsundir hafa týnt lífi vegna HM í fótbolta í Katar

23.02.2021 - 14:36
Breska dagblaðið The Guardian birti í dag óhugnalega fréttaskýringu sem greinir frá því að um 6500 farandverkamenn frá fimm löndum í Suður-Asíu hafi látið lífið í tengslum við uppbyggingu á mannvirkjum fyrir HM karla í fótbolta í Katar 2022.

Frá árinu 2010, þegar Katar vann réttinn til að halda heimsmeistaramótið 2022 í umdeildri kosningu FIFA, hafa yfir tvær milljónir farandverkamanna komið að gríðarlega umfangsmikilli uppbygginu á mannvirkjum og innviðum í landinu.

Samkvæmt gögnum sem The Guardian hefur undir höndum frá ríkisstjórnum landanna dóu 5927 ríkisborgarar frá Indlandi, Bangladesh, Nepal og Sri Lanka í tengslum við störf sín í Katar og opinber gögn frá Pakistan sýndu fram á dauðsföll 824 Pakistana til viðbótar. Að öllum líkindum eru dauðsföllin mun fleiri þar sem gögn frá öðrum löndum vantar inn í samantekt The Guardian auk þess sem atvik frá árinu 2021 eru ekki inni í heildartölunni.

Katar þurfti að ráðast í feykilega uppbyggingu til að geta haldið HM karla í fótbolta sem er einn stærsti viðburður heims. Á meðal þess sem þurfti að byggja var nýr alþjóðaflugvöllur, vegir, almannasamgöngukerfi, hótel, sjö knattspyrnuvellir af flottustu gerð auk þess sem heil borg var búin til sem kemur til með að hýsa sjálfan úrslitaleikinn í desember 2022.