Ríkið sýknað af bótakröfu sonar Tryggva Rúnars

23.02.2021 - 18:08
Mynd með færslu
Tryggvi Rúnar Leifsson, einn sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum Mynd: RÚV
Íslenska ríkið var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær sýknað af skaðabótakröfu Arnars Þórs Vatnsdal sem er sonur Tryggva Rúnars Leifssonar, eins sakborninga í Guðmundar-og Geirfinnsmáli. Dómurinn telur að ríkið hafi tekið það skýrt fram þegar lög um bætur vegna málanna voru samþykkt að ekki ætti að greiða öðrum en eftirlifandi maka og börnum sakborninga í málinu. Hefði ætlunin einnig verið sú að greiða börnum sem hefðu verið ættleidd hefði slíkt verið tekið fram.

Ríkissjóður hefur greitt út 774 milljónir í miskabætur á grundvelli laga sem samþykkt voru í desember 2019 um bætur til þeirra sem sýknaðir voru, og eru á lífi, og til eftirlifandi maka og barna þeirra sem látnir eru vegna Guðmundar-og Geirfinnsmála.   

Ríkið hafnaði hins vegar kröfu Arnars Þórs með þeim rökum að hann hefði verið ættleiddur fjórum árum eftir að Tryggvi Rúnar losnaði úr fangelsi.  Arnar stefndi því íslenska ríkinu og krafðist þess að ríkið yrði dæmt til að greiða honum rúmar 85 milljónir eða sömu upphæð og eftirlifandi eiginkona Tryggva fékk og ættleidd dóttir hans fengu. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Arnars Þórs, sagði í samtali við fréttastofu á sínum tíma að Arnar væri sá eini sem lægi eftir óbættur. „Og það er ósanngjarnt.“

Arnar benti á í stefnu sinni að hann hefði heimsótt föður sinn reglulega í fangelsið þegar hann var barn og þeir feðgar hefðu haldið reglulegu sambandi eftir að Tryggvi lauk afplánun.   Hann sagði ættleiðingu sína eiga rætur að rekja til þess að faðir hans var fangelsaður. „Það verður enginn samur eftir að hafa verið beittur slíkum órétti,“ segir í stefnunni.

Hann sagðist hafa sætt aðkasti og útskúfun allt sitt líf fyrir það eitt að vera sonur föður síns sem hafi að ósekju verið dæmdur fyrir morð í frægasta og alræmdasta sakamáli Íslandssögunnar. „Þau skipti sem vegið hefur verið að friði, æru og hans með þessum hætti eru óteljandi og á því ber ríkið alla ábyrgð.“ Þrátt fyrir orð forsætisráðherra, ríkisstjórnar og Alþingis um ranglæti, yfirbót og óbætanlegt tjón hefði ríkið hafnað að greiða honum miskabætur. 

Héraðsdómur segir í dómi sínum að fullyrðing Arnars um að hann hafi orðið fyrir aðkasti vegna málsins sé með öllu ósönnuð. Ef svo hefði verið væri það heldur ekki á ábyrgð ríkisins.  Við ættleiðingu hans hefðu fallið niður öll lagaleg tengsl hans við föður sinn og því ætti hann ekki rétt á bótum. Var ríkið því sýknað af bótakröfunni.