Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Reglur hannaðar fyrir íþróttir þar sem tvö lið mætast

Mynd: RÚV / RÚV

Reglur hannaðar fyrir íþróttir þar sem tvö lið mætast

23.02.2021 - 20:35
Þrátt fyrir að íþróttafélög og sérsambönd fagni því að áhorfendur verði leyfðir á íþróttakeppnum er það þó þannig að flækjustigið er meira hjá sumum sérsamböndum en öðrum. Framkvæmdastjóri Fimleikasambandsins segir að reglugerðirnar séu aðallega hannaðar fyrir íþróttir eins og handbolta og körfubolta.

Mótahald hófst aftur hjá Fimleikasambandinu síðustu helgi, þegar keppt var í hópfimleikum, eftir að það hafði legið niðri í heilt ár. Um næstu helgi er svo bikarmót í áhaldafimleikum og bikarmót í stökkfimi. Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Fimleikasambandsins, segir reglugerðir heilbrigðisráðherra í kringum sóttvarnir virðast að mestu hannaðar fyrir íþróttir þar sem tvö lið mætast.

„Þetta er kannski aðeins flóknari útfærslur. Þú ert kannski með 10 félög sem mæta og hvernig ætlar þú þá að finna lausn á allskonar öðrum hlutum, eins og í fimleikum ertu með dómara, kannski 35. Þú ert að telja alla þessa hluti inn í. Þú þarft líka starfsfólk til að telja í stúkuna og tryggja að það sé farið eftir reglum. Við erum líka mjög upptekin að fara eftir settu regluverki. Þetta er mikið flækjustig, við erum alveg til í það. Okkur finnst gaman að finna lausnir á málefnunum. Stundum hefur aðeins borið á því það sé ekki alveg búið að átta sig á því hvað þetta getur líka verið stórt flækjustig fyrir þær greinar sem eru ekki í þessu hefðbundna „tvö lið mæta til keppni” greinum,” segir Sólveig

Þar sem tvö stór mót eru um næstu helgi sé fyrirvarinn stuttur, þrátt fyrir mikið flækjustig. Önnur sérsambönd líkt og Sundsambandið og Frjálsíþróttasambandið þurfi að glíma við sama vandamál í kringum sitt mótahald. „Það er kannski ákveðin fjöldi keppenda sem eru mættir til leiks og við höfum ekki langan tíma til að finna lausn á því hvernig við eigum að taka á móti áhorfendum, raða þeim í stúkuna, hafa það númerað, kennitölur og símanúmer og allt þetta,” segir Sólveig.