Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ræða sameiningu Svalbarðshrepps og Langanesbyggðar

Mynd með færslu
 Mynd: Karen Rut Konráðsdóttir - RÚV
Óformlegar viðræður eru að hefjast um mögulega sameiningu Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps. Oddviti Svalbarðshrepps segir sveitarfélögin eiga það margt sameiginlegt að auðvelt ætti að vera að taka skrefið til fulls.

Það var sveitarstjórn Svalbarðshrepps sem fyrst leitaði til nágranna sinna í Langanesbyggð um að hefja viðræður um mögulega sameiningu sveitarfélagnna.

Sveitarfélögin starfi saman að öllum helstu verkefnum

Sigurður Þór Guðmundsson, oddviti, segir þetta ekki úr lausu lofti gripið. Sveitarfélögin tvö starfi orðið saman að öllum helstu verkefnum og hafi gert lengi og í raun sé þetta orðið eitt og sama samfélagið. „Núna treystum við okkur til þess að fara að leggja til að klára þetta og sameina sveitarstjórnirnar. Það er í rauninni það eina sem er eftir.“ 

Hafa samþykkt að hefja óformlegar viðræður

Sveitarfélögin hafa nú hvort um sig skipað þrjá fulltrúa í sameiginlega nefnd og samþykkt að hefja óformlegar viðræður. Haldinn var íbúafundur um þetta í Svalbarðshreppi í síðustu viku og Þorsteinn Ægir Egilsson, oddviti Langanesbyggðar, segir að þar sé íbúafundur einnig á dagskrá. Þá hafa oddvitarnir átt sameiginlegan fund með samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Telur að auðvelt verði að sameina sveitarfélögin

„Svalbarðshreppur hefur eindregið óskað eftir því að við færum strax í formlegar viðræður. En það er allt í lagi að fara í óformlegar viðræður fyrst og vonandi breytist það yfir í formlegar,“ segir Sigurður. „Ég held að við séum búin að byggja upp það traust okkar á milli að við eigum auðvelt með að stíga þetta skref.“