Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nýtt frá Red Riot, Soma og Albatross

Mynd: Albatross / Albatross

Nýtt frá Red Riot, Soma og Albatross

23.02.2021 - 17:05

Höfundar

Að venju er fjölbreytnin við völd í íslenskri útgáfu og tónlistarfólkið okkar bíður i byrjun vikunnar upp á allt frá sveitaballapoppi Albatross yfir í endurkomu Soma, blús frá Kbald og arabíska tónstiga Sigmars Þórs, nýtt verkefni frá Hildi og Rögnu sem heitir Red Riot, ábreiðu af Páli Óskari frá Elínu Hall og vangalag frá Sunnu Friðjóns.

Albatross - Allt á hvolfi

Hljómsveitin Albatross var formlega stofnuð af þeim Halldóri Gunnari og Sverri Bergmann sumarið 2016 en er nú um stundir sextett. Hljómveitin hefur sent frá sér lagið Allt á hvolfi sem er sveitaballalegur slagari að hætti Albatross.


Soma - Fólk eins og fjöll

Hljómsveitin Soma snýr aftur eftir 23 ára þögn núna í vikunni með laginu Fólk eins og fjöll. Sveitin spilar eins og sumir muna eflaust eftir enn þá gítarrokk eins og þeir gerðu í þekktasta slagara þeirra Grandi Vogar sem var að finna á plötunni Föl.


Kbald - Liquorice

Lagið Liquorice er instrumental blús-rokklag sem Kjartan Baldursson hefur sent frá sér undir nafninu Kbald. Lagið samdi hann upp úr stuttu stefi sem hann hafði áður deilt á samfélagsmiðlum. Stefið varð mjög vinsælt á netinu og fékk tæplega milljón spilanir á Instagram og Youtube samanlagt.


Sigmar Þór - Karthago

Karthago er annað lagið sem Sigmar Þór Matthíasson sendir frá sér af væntanlegri plötu sinni, Meridian Metaphor. Lagið er tileinkað góðum vini Sigmars frá Túnis, Ayman Boujlida, sem fer einmitt á kostum í upphafi lagsins með slagverks- og konnakolsólói.


Red Riot - Bounce Back

Lagið Bounce Back er flutt af Red Riot sem er samstarfsverkefni tónlistarkvennana Hildar Kristínar Stefánsdóttur og Rögnu Kjartansdóttur. Lagið mixað og masterað af Oculus og gefið út af Kimochi Records og er jafnframt fyrsta lag af væntanlegri breiðskífu Red Riot.


Elín Hall - Stanslaust stuð

Elín Hall hefur sent frá sér nýja útgáfu af slagara Páls Óskars, Stanslaust stuð. Í útgáfur Elínar hefur verið hægt á laginu til muna og bætt við drungalegum gítartónum sem gefa laginu öðruvísi stemmningu.


Sunna Friðjóns - Inn í skugganum

Sunna Friðjónsdóttir hefur sent frá sér lagið Inn í skugganum þar sem hún spilar á píanó auk þess að syngja. Henni til halds og traust í laginu sem verður að finna á plötunni Let the Light in eru þeir Ísidór Jökull Bjarnason á trommur, Ingvi Rafn Björgvinsson á rafbassi, Yara Polana á rafgítar og Agnes Eyja Gunnarsdóttir og Katrín Arndísar á fiðlu og lágfiðlu.